Fjöldi danskra sveitarfélaga hefur eytt um 42 milljónum danskra króna, eða 841,5 milljónum íslenskra, frá árinu 2010 í að senda 59 ungmenni í fíkniefnaneyslu eða afbrotum í óhefðbundna meðferð á gamlar snekkjur í Karíbahafinu. Danski fréttamiðillinn Metroxpress greinir frá málinu, sem hefur vakið töluverða athygli hér í Danmörku.
Metroxpress greindi fyrst frá því hvernig bæjaryfirvöld í Hróarskeldu vörðu hátt í tuttugu milljónum íslenskra króna í ferðalag og uppihald síbrotaunglins, sem hlotið hafi dóm fyrir vopnað rán, til meðferðar í Karíbahafið. Kjarninn sagði frá umfjöllun danska fréttamiðilsins á dögunum, en nú hefur málið heldur betur undið upp á sig.
Meðferðir sem litlu hafa skilað
Sveitarfélögin sem um ræðir eru 26 talsins, samkvæmt rannsókn Metroxpress. Þau hafa verið gagnrýnd fyrir að kasta fjármunum á glæ með því að senda kornunga glæpamenn og fíkla í sólarlandaferð til einhvers konar meðferðar. Þó ungmenninn búi við meiri aga en þau hafa mörg hver nokkurn tímann búið við, á meðan á dvöl þeirra stendur í sólinni, hefur úrræðið þótt skila litlum árangri.
Þá hefur Metroxpress eftir nokkrum ungmennum í neyslu að þau hafi stundað næturlífið grimmt í Karíbahafinu á meðan þau dvöldust þar á kostnað danskra sveitarfélaga.
Sveitarfélög vöknuð upp við vondan draum
Mörg sveitarfélaganna hafa hins vegar ákveðið að senda ekki fleiri ungmenni í Karíbahafið, en eitt þeirra er Albertslund sem gerði athugasemd við fagmennsku starfsfólks meðferðarsnekkjanna.
„Það er mjög flókið að vinna með þessi börn, og þó þú kunnir að hnýta hnúta er það ekki endilega það sem til þarf. Fólkið sem er að vinna með þessum börnum þarf þjálfun og sérþekkingu, það er ekki nóg að hrópa á þau og segja þeim að klifra upp mastrið. Við hættum einfaldlega að trúa á að það væri hægt að galdra með söltu vatni,“ segir Terje Bech, forstöðumaður fjölskyldu- og velferðarsviðs Albertslund, í samtali við Metroxpress.
Þau tvö sveitarfélög sem hafa varið hvað mestu skattfé í sólarlandaferðir fyrir vandræðaunglinga eru Fredrikssund og Guldborgsund. Fyrrnefnda sveitarfélagið hefur eytt tæpum átta milljónum danskra króna í ferðalög og uppihald tólf ungmenna í Karíbahafinu, það síðarnefnda varði rúmum 7,2 milljónum danskra í sambærilegt verkefni. Samanlagt hafa því sveitarfélögin tvö eytt hátt í 305 milljónum í íslenskum krónum talið í óhefðbundið meðferðarúrræði.