Sami maður og bauð íslenskum stjórnvöldum gögn um skattaundanskot þegna landsins til sölu bauð dönskum stjórnvöldum slík gögn líka. Samkvæmt heimildum Kjarnans voru dönsk stjórnvöld mjög áfram um að kaupa gögnin síðasta haust. Ekki hefur verið greint frá slíkum kaupum í dönskum fjölmiðlum.
Heimildir Kjarnans herma einnig töluverð samskipti hafi verið milli opinberra aðila á Íslandi og í Danmörku um kaupin á gögnunum. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um að kaupa gögnin, sem geyma upplýsingar um aflandsfélög skráð í eigu Íslendinga í þekktum skattaskjólum. Gögnin voru fyrst boðin íslenskum yfirvöldum til sölu snemma á síðasta ári.
Íslendingar enn ekki búnir að kaupa gögnin
Í byrjun desember sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem það heimilaði embætti skattrannsóknarstjóra að kaupa gögnin að ýmsum skilyrðum uppfylltum. Eitt þeirra skilyrða var að greiðsla yrði ekki innt af hendi fyrir upplýsingarnar nema að þær myndu leiða til aukinnar skattheimtu. Auk þess var sérstaklega tekið fram að gögnin hafi ekki mátt vera fengin með ólögmætum hætti. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í samtali við Stöð 2 á milli jóla og nýárs að búast mætti við því að niðurstaða myndi liggja fyrir í málinu fyrir lok janúarmánaðar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gagnrýndi skattrannsóknarstjóra í viðtali við RÚV um helgina.
Svo leið janúar og ekkert gerðist. Þar til um helgina þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gagnrýndi embætti skattrannsóknarstjóra harðlega fyrir framgöngu sína í málinu í viðtali við RÚV, sagði að það yrði að rísa undir þeirri ábyrgð sinni að stunda skattrannsóknir og að ekki kæmi til greina að „greiða fyrir gögn af þessum toga með ferðatöskum af seðlum til einhverra huldumanna“.
Hundruð íslenskir aðilar sem áttu aflandsfélög
Þegar seljandi gagnanna setti sig í samband við embætti skattrannsóknarstjóra í fyrra lét hann það hafa nöfn 50 íslenskra aðila sem vísbendingar eru um að hafi stundað skattaundanskot. Um var að ræða tíu prósent þeirra gagna sem maðurinn var með undir höndum og bauð til sölu.
Sá sem sendi sýnishornið vill fá greitt fyrir að afhenda öll gögnin sem hann hefur undir höndum. Heimildir Kjarnans herma að dönskum yfirvöldum hafi verið boðið að kaupa gögn af sama manni og að samstarf hafi verið milli íslenskra stofnana og danskra vegna málsins. Danirnir hafi verið mjög áfram um að kaupa gögnin en málið hefur ekki verið jafn áberandi í fjölmiðlum þar og hér og ekkert virðist hafa verið skrifað um hvort af kaupunum hafi orðið eða ekki.