Fréttablaðinu, sem áður kom út í 80 þúsund eintökum á dag og var dreift inn á heimili fólks á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri að morgni, er nú dreift í 25 þúsund eintökum á höfuðborgarsvæðinu og tíu þúsund eintökum á landsbyggðinni. Dreifingin fer fram á 120 stöðum, á borð við matvöruverslanir, bensínstöðvar og sundlaugar, á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum, Árborg, Ölfusi, Akranesi, Borgarnesi, Akureyri og víðar. Dreifing blaðsins í liðinni viku var því um 43 prósent af því sem hún var þegar blaðið var borið í hús.
Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að til standi að auka daglega dreifingu í 45 þúsund í næstu viku. Það er 56 prósent af því upplagi sem dreift var af síðasta Fréttablaði ársins 2022.
Greint var frá því í upphafi árs að hætt yrði að dreifa Fréttablaðinu inn á heimili fólks, líkt og gert hefur verið frá því að fríblaðið var stofnsett árið 2021. Dreifingin var í höndum Póstdreifingar, fyrirtækis sem Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, á stóran hluta í á móti framkvæmdastjóra þess og Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Með því að hætta dreifingu í hús áætlar Torg að Póstdreifing verði af um einum milljarði króna í tekjum á þessu ári, en heildartekjur þess fyrirtækis voru um 1,7 milljarðar króna árið 2021.
Lestur dregist hratt saman
Með þeirri dreifingu sem áður var, þar sem blaðið kom inn um lúgu fjölda fólks á hverjum morgni, náði Fréttablaðið yfirburðastöðu á prentmarkaði á Íslandi. Vorið 2007 sögðust til að mynda 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Síðan hefur fjarað jafnt og þétt undan lestrinum vegna ýmissa ástæðna. Tæknibylting samhliða snjallvæðingu og stafrænum framförum hefur skilað breyttri neysluhegðun, enda leiðir lesenda og áhorfenda til að nálgast fréttir allt aðrar í dag en þær voru fyrir 15 árum síðan.
Til að bregðast við þessari þróun fækkaði Fréttablaðið útgáfudögum úr sex í fimm árið 2020. Í haust boðaði jón Þórisson, forstjóri útgáfufélags blaðsins, svo frekari breytingar og sagði óumflýjanlegt að á einhverjum tímapunkti myndi Fréttablaðið hætta að koma út á prenti.
„Er álverið hætt að veita bjartsýnisverðlaunin?“
Skrefið sem var stigið í byrjun árs var þó ekki full tilfærsla yfir í stafræna útgáfu, heldur að dreifa blaðinu í þar til gerða kassa á fjölförnum stöðum. Gunnar Smári Egilsson, sem tók þátt i að stofna Fréttablaðið, var einn helsti hugmyndafræðingurinn á bakvið útgáfumódelið í árdaga þess og stýrði útgáfunni á þeim tíma sem hún var í mestum vexti, virðist ekki hafa mikla trú á þessari breytingu. Hann skrifaði í stöðuuppfærslu á Facebook: „Fólk í vanda verður oft vonglatt. Útgefandi Fréttablaðsins, sem telur sér trú um að halda megi óbreyttum lestri með því að hætta að bera út blaðið, er að slá einhver met að þessu leyti. Er álverið hætt að veita bjartsýnisverðlaunin?“
Fyrirkomulagið sem nú verður á dreifingunni felur í sér að Fréttablaðið liggur ekki lengur á mottunni hjá fólki að morgni, heldur þurfa áhugasamir að sækja sér blaðið, vilji þeir það á prenti, í matvöruverslun, á bensínstöð, í sundlaug eða á aðra staði þar sem það er fáanlegt í þar til gerðum stöndum. Í þessu fyrirkomulagi felst sú eðlisbreyting að íbúar á dreifingarsvæði Fréttablaðsins þurfa að velja að sækja sér blaðið, í stað þess að fá það nema þeir óski sérstaklega eftir því að fá það ekki. Auk þess stendur fólki áfram sem áður til boða að lesa blaðið stafrænt á netinu eða í appi, líkt og verið hefur árum saman.
Hver áhrif þessara breytinga verða á lestur Fréttablaðsins mun koma í ljós þegar Gallup birtir fyrstu mælingu sínu á lestri prentmiðla þar sem að fullu verður tekið tillit til þeirra. Það verður líkast til ekki fyrr en í byrjun febrúar.
Nýir eigendur sett mikið fé inn í reksturinn
Fréttablaðið er í eigu útgáfufélagsins Torgs og er flaggskip þess félags. Félagið rekur einnig vefmiðlana dv.is, eyjan.is, pressan.is, 433.is, hringbraut.is, frettabladid.is og sjónvarpsstöðina Hringbraut.
Torg er í eigu tveggja félaga, Hofgarða ehf. og HFB-77 ehf. Eigandi fyrrnefnda félagsins er fjárfestirinn Helgi Magnússon og hann á 82 prósent í því síðarnefnda. Helgi er auk þess stjórnarformaður Torgs. Aðrir eigendur þess eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, áðurnefndur Jón Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og núverandi framkvæmdastjóri Torgs, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi. Hlutur annarra en Helga er hverfandi.
Hópurinn keypti Torg í tveimur skrefum á árinu 2019. Kaupverðið var trúnaðarmál en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins. Hlutafé í Torgi var svo aukið um 600 milljónir króna í lok árs 2020 og aftur um 300 milljónir króna um ári síðar. Með nýju hlutafjáraukningunni höfðu verið settir 1,5 milljarðar króna í kaup á Torgi og hlutafjáraukningar frá því að Helgi og samstarfsmenn hans komu að rekstrinum 2019.
Tap af reglulegri starfsemi fjölmiðlafyrirtækisins Torgs var 325,7 milljónir króna á árinu 2021, samkvæmt ársreikningi félagsins. Heildartapið var 252,5 milljónir króna en þar munar mestu um að tekjuskattsinneign vegna taps ársins var bókfærð sem tekjur upp á 73 milljónir króna. Uppsafnað skattalegt tap nýtist ekki nema að fyrirtæki skila hagnaði.
Á árunum 2019 og 2020 var milljarðs króna tap af reglulegri starfsemi fyrirtækisins. Samanlagt hefur því verið rúmlega 1,3 milljarða króna tap af henni á þremur árum. Heildartap, þegar búið er að taka tillit til þeirrar tekjuskattsinneignar sem skapaðist vegna tapsins á þessum árum, var tæplega 1,1 milljarður króna.