Þetta var einn af þessum dögum þegar lífið virtist fullt af hindrunum. Henrik Steen er blaðamaður og lausapenni en þrátt fyrir góðærið hefur hann ekki beint hrasað um atvinnutækifærin. Hann hafði því ákveðið að leita sér að aukastarfi og var á leiðinni til norsku Vinnumálastofnunarinnar til að sjá hvað væri í boði. Þreyttur og vonsvikinn settist hann í neðanjarðarlestina þegar hann sá handskrifaðan miða á sætinu. Skyndilega varð dagurinn betri og framtíðin virtist ekki jafn dökk og áður.
Í samtali við Aftenposten segir Henrik að ákvörðunin um að leita til Vinnumálastofnunar hafi verið mjög erfið. Hann hafi alist upp við það að fólk ætti að bjarga sér sjálft og að félagslegur stuðningur væri í raun ávísun á að eitthvað hefði farið úrskeiðis. „En þegar efnahagurinn var orðinn þannig að ég þurfti að ákveða hvort ég keypti tannkrem eða rakkrem ákvað ég að lokum að leita eftir aðstoð,“ segir Steen. Þennan dag var neðanjarðarlestin nánast full en á sætinu sem Henrik settist í var miði sem á stóð:
„Kæri þú sem finnur miðann. Aldrei gleyma að þú ert einstök manneskja sem ert mikils virði og frábær eins og þú ert. Þú mátt aldrei glata trúnni á sjálfa þig, þú býrð yfir innri styrk til að gera allt sem þú vilt. Þú átt það skilið að þér líði vel. Megirðu eiga góðan dag.“
Einföld skilaboð sem náðu beint til Henriks þar sem hann sat í lestinni og þegar hann kom heim setti hann mynd af miðanum á Facebook og þakkaði nafnlausa höfundinum fyrir. Fljótlega fór sagan á flug og í ljós kom að fleiri höfðu fundið sambærilega miða. Ekki voru þó allir sannfærðir um að hér væri um góðverk einstaklings að ræða. Sumir töldu augljóst að þetta væri auglýsing og að öll athygli á samfélagsmiðlum væri því eingöngu til þess fallinn að breiða út augýsinguna. Sumir töluðu um að þetta liti út fyrir að vera orðsending frá Englaskólanum sem Märtha Louise prinsessa rekur ásamt fleirum.
Vill ekki koma fram undir nafni
Fljótlega eftir að fréttamiðlar fóru að fjalla um málið hafði hins vegar ung kona samband við Oslóarblaðið og sagðist vera sú sem skrifaði miðana og kom þeim fyrir í lestunum. Hún vill þó ekki koma fram undir nafni því hún sagðist ekki gera þetta til að verða fræg eða til að fá athygli. Miðarnir væru til að gleðja aðra og þannig ætti það að vera. Hún veit ekki hvort miðarnir hefðu sömu áhrif ef fólk tengdi þá við nafn eða andlit og þess vegna væri mikilvægt að hún kæmi ekki fram. „Það skiptir mig öllu máli að vita að ég getu haft svo mikil áhrif. Ég hefði aldrei trúað að miðarnir fengju svo mikla og jákvæða athygli og að þeir hefðu svo mikla þýðingu fyrir aðra. Það kostar mig ekkert að skrifa miðana og ég mun halda áfram að gera það svo lengi sem þeir gleðja einhverja.“
Einn af miðunum.
150 leiðir að betra samfélagi
Reyndar minna miðarnir á átak norska Rauða krossins sem bendir fólki á 150 einfaldar leiðir til að gera samfélagið örlítið betra. Það þarf nefnilega ekki mikið til að gleðja aðra, til dæmis bara að hleypa einhverjum fram fyrir sig í röðinni úti í búð, bjóða góðan daginn eða bara smæla framan í heiminn eins og Megas sagði. Norsku miðarnir smellpassa inn í þessa hugsun og minna okkur á hvað litlu hlutirnir geta oft skipt miklu máli.