Dunkin´Donuts, sem opnaði kaffihús á Laugavegi fyrir viku síðan, hefur selt um tíu þúsund kleinuhringi á dag síðan að staðurinn var opnaður. Það jafngildir rúmlega ellefu seldum kleinuhringjum á hverri mínútu sem staðurinn er opinn. Ef hver kleinuhringur er að jafnaði 300 kaloríur neyta Íslendingar daglega þriggja milljóna hitaeininga í kleinuhringjum Dunkin' Donuts. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar er rætt við Árna Pétur Jónsson, eiganda rekstrarfélags 10-11 og Iceland, en Dunkin´ Donuts er í eigu þess. Hann segir hina miklu aðsókn ekki hafa komið sér á óvart því að þetta sé reynslan af opnum staðanna um allan heim.
Í apríl var tilkynnt um að Dunkin´Donuts hefði gert sérleyfissamning við íslenska fyrirtækið Drangasker ehf., dótturfélag 10-11, um að hefja undirbúning að opnun veitingastaða á Íslandi. Samningurinn gerir ráð fyrir opnun 16 veitingastaða víða um land á næstu fimm árum, en flestir þeirra verða á höfuðborgarsvæðinu.
Árni Pétur segir við Morgunblaðið að áætlað sé að opna tvo nýja staði fyrir áramót, eitt kaffihús og einn inni í 10-11 verslun eða Skeljungsbensínstöð. "Við ætlum að hafa einhverja vegalengd á milli staðanna[...]Menn sjá hvað þetta vekur mikla athygli þannig það eru margir að bjóða okkur húsnæði og við erum aðeins að skoða og meta þetta."