Eggert Skúlason, nýráðinn annar ritstjóri DV, boðar hertar samskiptareglur í athugasemdakerfi á vefsíðu miðilsins, og að þær verði kynntar bráðlega. Þetta kemur fram í fyrsta leiðara sem Eggert skrifar fyrir DV, og birtist í morgun.
Þar segir: „Athugasemdakerfi DV hefur oftar en ekki verið skotspónn þeirra sem telja að umræðan á netinu sé fyrir neðan allar hellur og oft og tíðum ótæk. Auðvitað er það svo að oft er umræðan í þessu kerfi góð og jafnvel málefnaleg. Á nýju ári mun DV.is setja strangari reglur um það með hvaða hætti fólk tjáir sig. Þessar reglur verða kynntar hið fyrsta og eru viðleitni til þess að bæta orðræðuna.“
Strigakjöftum veitt sakaruppgjöf
Um leið og nýju samskiptareglurnar hjá DV verða kynntar mun miðillinn veita þeim „sakaruppgjöf“ sem hafa verið bannaðir frá þátttöku í athugasemdakerfinu. „Með því sitja allir við sama borð og geta tjáð sig og vita þá af nýjum reglum. Víða um heim eru athugasemdakerfi af þessu tagi í boði fyrir áskrifendur og almenning. Að sama skapi gilda reglur um þá tjáningu. DV vill með nýjum reglum stuðla að betri, sanngjarnari og málefnalegri umræðu á vefsíðu sinni DV.is,“ skrifar Eggert Skúlason í leiðara.
Þá segir ritstjórinn að ritstjórnarstefna blaðsins muni verða sú sama að meginuppistöðu. „Áramótaheitið er einfalt í sniðum og lýtur að því að vanda sig aðeins meira á nýju ári. Þegar dansað er á brúninni þurfa menn að standa klárir á hvar þeir stíga niður.“
Að lokum skrifar Eggert: „DV er fjölmiðill sem gagnrýnir og veitir aðhald. DV er hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu. DV fer sínar eigin leiðir og er ekkert óviðkomandi.“