Ríkisendurskoðun segir ljóst að allar áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hafi verið „mjög vanáætlaðar“ og gagnrýnir stofnunin að kostnaður vegna dýpkun hafnarinnar hafi ekki verið bókfærður sem rekstrarkostnaður á undanförnum árum, eins og eigi að gera.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri stjórnsýsluúttekt um framkvæmda- og rekstrarkostnað Landeyjahafnar, sem kynnt var fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun. Ríkisendurskoðun ákvað að ráðast í úttektina af eigin frumkvæði.
Í úttektinni kemur fram að kostnaður vegna dýpkunar hafnarinnar hafi ekki verið bókfærður sem rekstrarkostnaður, heldur sem fjárfestingarkostnaður, þar sem fjárveitingar til dýpkunarinnar komi af fjárfestingarlið í fjárlögum. „Þetta gagnrýnir Ríkisendurskoðun og bendir á að kostnað vegna viðhaldsdýpkunar beri að færa sem rekstrarkostnað hafnarinnar,“ segir í athugasemd stofnunarinnar.
Búið er að verja meira fé í að dæla sandi frá og úr Landeyjahöfn en það kostaði að byggja höfnina á sínum tíma. Stofnkostnaður við höfnina nam tæpum 3,33 milljörðum á meðan að 3,66 milljörðum var varið í að dýpka höfnina frá því hún var tekin í notkun og þar til í lok árs 2020.
Kostnaðarsamt að þróa dýpkunaraðferðir, segir Vegagerðin
Í viðbrögðum Vegagerðarinnar við aðfinnslum Ríkisendurskoðunar um færslu dýpkunarkostnaðar sem fjárfestingarkostnaðar segir að ljóst sé að frá því að höfnin opnaði hafi farið mikill tími í að þróa dýpkunaraðferð sem hentar til þess að viðhalda dýpi í höfninni.
„Slíkt er kostnaðarsamt og stór hluti af miklum kostnaði fyrstu árin er rakinn til þess. Ekkert dýpkunarverkefni á Íslandi, og þó víðar væri leitað, er jafn krefjandi og í Landeyjahöfn og því var mikilvægt að þróa aðferðir sem geta virkað,“ segir Vegagerðin einnig.
Mestur varð kostnaðurinn árið 2015, en það ár var gerð tilraun með að dýpka verulega mikið framan við hafnarmynnið, í von um að sú aðgerð myndi minnka dýpkunarþörf komandi vetrar. Sú aðgerð skilaði ekki árangri og hefur ekki verið reynd aftur.
Dýpkunarkostnaður enn mjög hár
Í úttekt Ríkisendurskoðunar er dregið fram að samanlagður kostnaður við dýpkun Landeyjahafnar á árunum 2011-2020 hafi numið hátt í 3,7 milljörðum króna sem áður segir, en að í áætlunum Siglingastofnunar hafi verið gert ráð fyrir því að kostnaðurinn á þessu tímabili yrði um 900 milljónir, m.v. verðlag hvers árs. Kostnaður við dýpkun hafnarinnar hafi því verið fjórfaldur miðað við upphaflegar áætlanir.
Rétt er að taka fram að forsendur fyrir byggingu hafnarinnar gerðu ráð fyrir því að nýr Herjólfur yrði keyptur samhliða hafnarframkvæmdum. Það var ekki gert, nýji Herjólfur var ekki tekinn í notkun fyrr en árið 2019 og því var notast við skip sem risti dýpra í lengri tíma en lagt var upp með. Aurburður úr Markarfljóti vegna jökulhlaupa og eldgossins í Eyjafjallajökli setti einni strik í reikninginn.
Samkvæmt upplýsingum sem Vegagerðin veitti Ríkisendurskoðun hefur nýr Herjólfur gjörbreytt dýpkunarþörf hafnarinnar. Ríkisendurskoðun vekur þó eftir sem áður athygli á því í úttekt sinni „að dýpkunarkostnaður er enn mjög hár og langt umfram upphaflegt mat.“
Árleg framlög vegna dýpkunar hafnarinnar eru áætluð 334 milljónir króna fram til ársins 2024, samkvæmt samgönguáætlun, af alls 433 milljónum sem áætlaðar eru í árlegan rekstur hafnarinnar á næstu árum.
Hefði þurft að vanda betur til verka við kaup á botndælubúnaði
Fram kemur í skýrslunni að Ríkisendurskoðun telji að Vegagerðin hefði þurft að „ígrunda betur“ kaup sín á botndælubúnaði fyrir Landeyjahöfn og rekur að um umtalsverða fjárfestingu hafi verið að ræða. Búnaðurinn sjálfur kostaði 100 milljónir keyptur til landsins en alls fóru 874 milljónir í þetta verk samkvæmt af fjárlögum áranna 2019 og 2020.
„Fljótlega eftir að búnaðurinn kom til landsins árið 2020 kom í ljós að afköst hans myndu ekki réttlæta kostnað við uppsetningu og var því hætt við verkið í miðjum klíðum. Um var að ræða kostnaðarsama fjárfestingu sem reyndist ekki grundvöllur fyrir. Þó svo að eitthvert gagn sé af fjárfestingunni og framkvæmdum henni tengdum sem nýtist til frambúðar við Landeyjahöfn beinir Ríkisendurskoðun því til Vegagerðarinnar að vanda betur undirbúning verka sinna í framtíðinni,“ segir í athugasemd Ríkisendurskoðunar vegna þessa.
Vegagerðin tekur að nokkru leyti undir gagnrýnina og segir að sá hluti verksins sem sneri að botndælubúnaði, „hafi ekki verið nógu vel ígrundaður“. Stofnunin segir þó að verkefnið, sem fól einnig í sér aðrar breytingar á Landeyjahöfn hafi verið „mjög mikilvægt varðandi kyrrð innan hafnar.“
„Rafvæðing skipsins hefði ekki verið möguleg án þessarar framkvæmdar þar sem ekki er hægt að hlaða skipið nema í mikilli kyrrð. Veglagning út á garðsenda er mikil öryggisaðgerð en ef til þess kemur að um óhapp eða slys verði getur skipt sköpum að geta ekið út á garðsendana í björgunaraðgerðum. Ekki má gera lítið úr þessum framkvæmdum þó svo að hinn hluti verkefnisins, sem sneri að botndælubúnaði, hafi ekki verið nógu vel ígrundaður. Vegagerðin tekur undir það mat Ríkisendurskoðunar,“ segir í viðbrögðum stofnunarinnar.