Viðskiptafélagarnir Edward Mac Gillivray Schmidt og Jónas Hagan Guðmundsson hafa keypt þrjár efstu hæðirnar í ellefu hæða íbúðaturninum í Skuggahverfinu svokallaða við Lindargötu 37 í Reykjavík. Félagarnir, sem eru báðir búsettir í Genf, hyggjast nota fjórar íbúðir á efstu hæðunum sem orlofsíbúðir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt heimildum blaðsins hafa félagarnir sett að minnsta kosti á annað hundrað milljónir í húsbúnað og hönnun og leggst sá kostnaður því við eitt hæsta fermetraverð landsins. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur samþykkt að tvær íbúðir í eigu Schmidt verði sameinaðar í eina íbúð, sem verður þá ríflega 356 fermetrar að stærð.
Jónas Hagan á hins vegar tvær efstu íbúðirnar á 10. og 11. hæð en þær eru ríflega 209 og 253 fermetrar að stærð. Samanlagt eru því þrjár efstu hæðirnar samanlagt röskir 819 fermetrar að stærð og herma heimildir Morgunblaðsins að reikna megi með fermetraverði upp á 700 þúsund krónur, en samkvæmt því er kaupverðið yfir 570 milljónir króna.
Í Morgunblaðinu segir að mögulega sé fermetraverðið vanáætlað, og hefur eftir fasteignasala að fermetraverðið á efstu hæðunum í nýjustu turnum Skuggahverfisins sé allt að milljón króna. Að viðbættum kostnaði við hönnun og húsbúnað megi því áætla að kostnaður við íbúðirnar sé um og yfir 700 milljónir króna.
Hjá sýslumanninum hjá Reykjavík fengust þær upplýsingar að ekki sé hægt að sjá kaupverð eignanna, því kaupverðið komi ekki fram í viðaukum við kaupsamning. Ekki er skylt að þinglýsa viðaukum og því eru þeir trúnaðargögn, en félagið Strendur ehf. var seljandi íbúðanna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Schmidt og Jónas Hagan voru í hópi fjárfesta sem fengu heimild frá Fjármálaeftirlitinu í haust til að fara með virkan eignarhlut í Straumi fjárfestingarbanka. Jónas Hagan er forstjóri Taxfree Worldwide og Schmidt er stjórnarformaður Steinhaufen Holding ehf., en félagið var hluti af kaupendahópnum í Straumi.