Fílabeinsströndin er mesta kakóbaunaframleiðsluland heimsins, og Ebólu-veiran í Afríku er þegar farinn að hafa víðtæk áhrif á framleiðsluna í landinu, en súkkulaði er sem kunnugt er unnið úr baunum. Yfirvöld hafa ákveðið að loka landamærunum að Líberíu og Gíneu en þar fer um gríðarlegt magn af kakóbaunum, sem selt er inn á alþjóðamarkaði.
Um 20 milljónir manna búa í Fílabeinsströndinni en ekki hefur enná komið upp eitt einasta Ebólu-tilfelli í landinu. Yfirvöld eru þó uggandi og telja að það sé aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta Ebólu-smitið kemur upp. Alþjóðasamtök Kakóframleiðenda (The World Cocoa Foundation) eru þegar farin að fylgjast náið með gangi máli, og eru stærstu hagsmunaðilarnir í greininni, svo sem Nestlé, Mars og fleiri, farin að teikna upp sviðsmyndir af því ef stórkostlega dregur úr framboði á mörkuðum, með þeim afleiðingum að verð þýtur upp.
Líklega er töluvert í að neytendur, þar með talið á Íslandi, finni fyrir þessum áhrifum. Og þó. Hlutirnir geta gerst hratt þegar óútreiknanlegir atburðir eru annars vegar.