Áform Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um að banna börnum 13 ára og yngri að nota rafskútur og láta allt að tveggja ára fangelsisrefsingu liggja við því að nota slík farartæki undir áhrifum áfengis eru gagnrýnd nokkuð í umsögnum sem bárust inn í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpsdrög frá ráðherra voru sett fram þar í síðasta mánuði.
Rafskútuleigan Hopp er á meðal þeirra sem sendu inn umsögn um fyrirhugaðar lagabreytingar og segir fyrirtækið að í greinargerð með frumvarpsdrögunum hafi „engar ástæður“ verið gefnar fyrir þeirri „íþyngjandi aðgerð“ að banna yngri en 13 ára með öllu að nota smáfarartæki. Hopp segir að tillagan sé sérstaklega „furðuleg“ í því ljósi að í sömu grein umferðarlaganna sé börnum 9 ára og yngri bannað að hjóla á reiðhjóli á akbraut nema undir eftirliti.
„Hopp telur miklu vænlegra til árangurs að hið opinbera tryggi umferðarfræðslu fyrir börn og ungmenni sem taki mið af nýjum ferðavenjum og hvetji til notkunar þeirra á öruggan hátt. Öruggar og umhverfisvænar ferðavenjur þarf að rækta frá unga aldri, ekki banna,“ segir í umsögn fyrirtækisins. Einnig er vikið að því að rafskútur hafi haft jákvæð áhrif á „skutlið“, akstur foreldra á börnum og unglingum í tómstundir og á viðburði.
Yrðu reiðhjól bönnuð börnum, ef þau væru fundin upp í dag?
Að hinu sama véku nokkrir einstaklingar, sem sendu inn umsagnir um málið. Faðir 10 ára barns sem notar rafhlaupahjól til þess að komast í íþróttastarf segir ekki augljósan samfélagslegan ávinning af því að banna börnum yngri en 13 ára að nota rafhlaupahjól. Mörg börn á þessum aldri noti rafhlaupahjól daglega til þess að komast ferða sinna, sérstaklega í hæðóttum úthverfum höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að bera þurfi slysatíðni á rafhlaupahjólum saman við slysatíðni á hefðbundnum reiðhjólum, og segir að spyrja megi „hvort börnum væri bannað að nota reiðhjól ef þau væru fundin upp í dag“.
Kópavogsbúi sem sendir inn umsögn bendir á að börn á aldrinum 10-15 ára í hans heimabæ séu „til fyrirmyndar við akstur á rafhlaupahjólum“ og að ferðamátinn sé mikið nýttur við ferðalög á íþróttaæfingar og félagsstarf. Segir hann að það séu miklu frekar ungmenni á aldrinum 16-22 ára sem ekki kunni sig nógu vel, á þessum fararskjótum.
Faðir þriggja barna segir svo í sinni umsögn að það sé „fullkomlega óraunsætt“ að setja 13 ára aldurstakmark á hjólin. „Hvað með reiðhjól, gírahjól sem komast mun hraðar? Á að setja aldurstakmörk á þau líka? Hvað hraða varðar er enginn munur á gírahjólum og rafknúnum hlaupahjólum. Vinsamlegast athugið að skutlferðum með börnin hefur snarfækkað hjá mörgum foreldrum sem sparar peninga og hefur jákvæð umhverfisáhrif. Við eigum líka að treysta börnunum fyrir hjólunum sem langsamlega flest kunna að nota þau á réttan hátt,“ segir í umsögn þessa föðurs, sem leggur til að aldurstakmörk á rafknúnum hlaupahjólum verði 11 ár, en ekki 13 ár.
Bráðalæknir telur ekkert vit í 2 ára refsiramma
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala og lektor í bráðalækningum við HÍ, ritaði umsögn við frumvarpsdrögin, þar sem hann segir að það hljómi skynsamlega að grípa til tæknilegra lausna við að takmarka þann hraða sem unnt er að koma rafhlaupahjólum á.
„Það er þó sérkennilegt að löggjafinn skuli hér taka fyrir eina tegund vélknúinna ökutækja og setja reglur um tæknilegar lausnir til hraðatakmörkunar. Tæknilega ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja einnig takmarkanir á það hversu hratt er unnt að keyra bíla, enda fráleitt að leyfa bíla á götum og vegum landsins sem unnt er að aka langt yfir þeim 90 km/klst sem er hámarkshraði á landinu. Að aka rafhlaupahjóli á 40 km/klst er hættulegt, mest þó fyrir þann sem er á hjólinu. Að aka bíl á 130 km/klst hraða er enn hættulegra, sérstaklega fyrir aðra í umferðinni,“ skrifar Hjalti Már.
Hann segir að með sömu rökum og teflt sé fram í frumvarpsdrögunum skyldi ætla „að það ætti að vera stefna löggjafans að innleiða búnað í öll vélknúin samgöngutæki sem takmarkar hversu hratt er hægt að fara, ekki bara rafhlaupahjól“.
„Þar sem flestir nýir bílar eru með staðsetningarbúnað ætti að vera hægt að takmarka hámarkshraða ökutækja við leyfðan hámarkshraða þeirrar götu sem ökutækinu er ekið á hverju sinni. Með vísan til hættueiginleika bifreiða fyrir aðra en þann ökumann sem brýtur gegn umferðarlögum, ætti að vera meiri ástæða til að grípa til slíkra aðgerða og lagðar eru til í frumvarpinu, gagnvart bifreiðum frekar en rafhlaupahjólum,“ ritar bráðalæknirinn.
Að sama skapi segir hann að hættan sem ölvunarakstur á rafhlaupahjólum skapar fyrir aðra vegfarendur sé engan veginn nægilega mikil til að hún réttlæti að við liggi refsirammi í lögum upp á allt að tveggja ára fangelsi.
„Að ferðast á rafhlaupahjóli ölvaður er afar óskynsamlegt. Hið sama má segja um að klifra upp í tré, valhoppa tröppur niður í kjallara eða nota borvél undir áhrifum áfengis. Reyndar má færa rök fyrir því að það sé almennt óskynsamlegt að verða ölvaður, því fylgir umtalsverð slysahætta,“ skrifar Hjalti Már og segir það sitt mat að hættan af notkun á rafhlaupahjólum undir áhrifum áfengis sé „að langmestu leyti fyrir þann sem er á rafhlaupahjólinu“.
Þannig sé „mikilvægur grundvallarmunur á að aka bíl undir áhrifum áfengis eða að vera á rafhlaupahjóli“ – akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis sé „stórhættulegt athæfi“, ekki bara fyrir ökumanninn heldur fylgi ölvunarakstri sennilega enn meiri hætta fyrir óvarða vegfarendur. „Því er eðlilegt að þung refsing liggi við því að stefna öðrum í hættu með ölvunarakstri,“ skrifar Hjalti.
Hopp segir í sinni umsögn að notkun á rafhlaupahjólum undir áhrifum áfengis sé vandamál sem þarf að taka á, en segir að forvarnir og fræðsla sé betri leið til þess að takast á við vandann en þungar refsingar.
Fyrirtækið gagnrýnir, rétt eins og yfirlæknir bráðamóttökunnar, að refsiramminn sem stefnt er að sé sá sami og fyrir ölvunarakstur á bifreið og bendir á að afleiðingar slysa og óhappa sem ökumenn bíla valdi séu „margfalt meiri en nokkur notandi smáfarartækis getur orðið valdur að“.
„Smáfarartæki eru flest innan við 50 kg, komast aðeins í 25 km hámarkshraða og bjóða fæst upp á að hafa farþega. Þyngd bíla er hins vegar mæld í tonnum og hámarkshraði þeirra einskorðast aðeins við afl vélarinnar og loftmótstöðu. Bílar eru einnig margfalt líklegri til að valda alvarlegum slysum eða dauða annarra vegfarenda. Þess má geta að refsiramminn er einnig tvö ár fyrir að sigla farþegaskipi undir áhrifum áfengis, kynferðislega áreitni og peningafals, svo fátt eitt sé 3 nefnt. Því er morgunljóst að tveggja ára refsirammi nær langt út fyrir það sem eðlilegt gæti talist miðað við þann skaða sem mögulega gæti hlotist af refsiverða athæfinu,“ segir í umsögninni frá Hopp, en fyrirtækið telur einnig að það skjóti skökku við að „gera mun stífari kröfur til notenda smáfarartækja en annarra virkra ferðamáta“ eins og reiðhjóla og hesta, hvað ölvun varðar.
Takmarka útleigu um helgar fremur en að setja stífar reglur um áfengisnotkun
Landssamtök hjólreiðamanna, LHM, senda sömuleiðis inn umsögn þar sem fram kemur að samtökin hafi ekki talið rétt að setja stífar reglur um notkun smáfarartækja undir áhrifum áfengis, heldur talað fyrir þeirri leið að setja hömlur á útleigu smáfaratækja í miðborginni um helgar á milli 21 á kvöldin og til 6 á morgnana.
„Í því fælust betri forvirkar aðgerðir heldur en að sekta fólk eftir á þegar slys hefur þegar orðið. Það er nefnilega hætt við því að lögregla muni ekki sinna þessu verkefni í forvarnarskyni heldur munu áhrifin fyrst og fremst verða að lögregla muni sekta þá ökumenn sem hafa lent í slysi undir áhrifum á rafhlaupahjóli. Það gæti jafnvel orðið til þess að fólk muni forðast það að kalla á aðstoð þegar það lendir í slysum til að forðast sektargreiðslur,“ segir í umsögn LHM, sem benda reyndar einnig á það að sá sem aki smáfarartæki undir áhrifum sé „fyrst og fremst hættulegur sjálfum sér, en ekki öðrum; ólíkt ökumanni á tveggja tonna bíl á miklum hraða“.
Landssamtök hjólreiðamanna leggja áherslu á það í umsögn sinni að frumvarp innviðaráðherra nái „ekki utan um þann alvarlega vanda sem tengist lagningu á deilirafskútum í þéttbýli“. „Skýrt þarf að vera hvar og hvernig eigi að ganga frá smáfarartækjum, sérstaklega svokölluðum deilirafskútum. Rafskútum frá leigum er illa lagt á stígum og gangstéttum um allan bæ og getur stafað hætta af þeim fyrir þá sem hjóla um stígana,“ segir í umsögn LHM, en samtökin kalla eftir því að ákvæði um lagningu smáfarartækja verði færð inn í lög.