Í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um svokallaðan bandorm, frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022, kemur fram að hann leggi til að sóknargjöld verði hækkuð í 1.107 krónur á ári árið 2022.
Meirihlutinn samanstendur af þingmönnum stjórnarflokkanna: Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var lagt til að sóknargjöld, lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, myndu verða 985 krónur á mánuði fyrir hvern skráðan einstaklinga 16 ára og eldri á næsta ári.
Hefði það gengið eftir myndi sóknargjaldið lækka úr 1.080 krónum á þessu ári og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu áttu sóknargjöld alls að verða 2.757 milljónir króna á árinu 2022. Það er um 215 milljónum krónum lægri upphæð en á að fara í sóknargjöld í ár.
Nú hefur þeirri ákvörðun verið snúið. Því mun kostnaður ríkissjóðs vegna greiðslu sóknargjalda aukast um meira en hálfan milljarð króna frá því sem stefnt var að í fjárlagafrumvarpinu.
Söfnuðir teljast ekki lengur traustir viðskiptamenn
Í umsögn biskupsstofu um bandorminn var fyrirætlunum um að lækka sóknargjöldin harðlega mótmælt.
Þar sagði að þetta myndi leiða til þess að trúfélög landsins myndu „enn eitt árið verða fyrir fordæmalausu tekjufalli þar sem tekjurnar verða nú aðeins um 51 prósent af því sem vera ætti skv. lögum um sóknargjöld. Hefði því sannarlega mátt ætla að hér væri ekki síður tilefni til björgunaraðgerða en nú eru uppi gagnvart ýmsum öðrum aðilum í þjóðfélaginu.“
Trúfrelsi á Íslandi í hættu
Í umsögninni, sem Pétur Markan biskupritari skrifar, sagði að það þyrfti að lágmarki að hækka sóknargjöldin upp í það sem þau voru í ár að viðbættri þeirri hækkun sem hefði átt að verða milli áranna 2021 og 2022. Þá færi sóknargjaldið upp í 1.171 krónur og framlagið myndi hækka um 275 milljónir króna.
„Því vart verður því trúað, að stjórnvöld ætli sér í alvöru að leggja starfsemi trúfélaganna endanlega í rúst eins og nú virðist stefna í og stefna með því trúfrelsi á Íslandi í hættu!,“ skrifaði Pétur og bætti við að sóknir landsins bæru „uppi sálgæslustarf, mannúðar og velferðarstarf, barna og æskulýðsstarf, eldriborgarastarf, messuhald, andlegt ræktarumhverfi og menningarstarf vítt í kringum landið. Sóknir landsins eru hryggjastykkið í fjölmörgum samfélögum, andlegt líf, sálgæsla og menningarvettvangur fólksins, sem greiðir sóknargjald fyrir þessa þjónustu.“
Efnahags- og viðskiptanefnd varð við kröfu biskupsstofu að mestu og hefur ákveðið að hækka sóknargjaldið á næsta ári í 1.107 krónur.
Rúmlega 60 prósent eru í þjóðkirkjunni
Alls áttu 7.951 milljónir króna að fara í málaflokkinn trúmál á næsta ári samkvæmt fjárlögum. Ljóst er að sú tala mun hækka en umtalsvert. Til viðbótar við aukin sóknargjöld ákvað meirihluti fjárlaganefndar að leggja til að yrði verði fjárheimild sem nemur 129,6 milljónum króna til Þjóðkirkjunnar vegna launa- og verðlagsbóta ársins 2022. Í nefndaráliti meirihlutans segir að „leiðrétting þessi er til þess að uppfylla samning íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar sem var óbættur við gerð fjárlaga.“
Í samræmi við nýjan viðbótarsamning um endurskoðun á kirkjujarðarsamkomulaginu frá 1997 og samningi um rekstrarkostnað kirkjunnar frá 1998 sem var undirritaður fyrir rúmum tveimur árum fær þjóðkirkjan þorra þeirrar upphæðar sem sett er í málaflokkinn trúmál. Árlega fær hún framlög frá ríkinu á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins sem og framlög sem renna til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna.
Í kirkjujarðasamkomulaginu fólst að ríkið yfirtók hundruð jarða sem kirkjan átti upphaflega, gegn því að greiða laun presta.
Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld og ef miðað er við að 61,1 prósent íbúa landsins tilheyra henni samkvæmt nýjustu birtu tölum Þjóðskrár þá má ætla að hlutdeild þjóðkirkjunnar í útgreiddum sóknargjöldum verði á næsta ári verði tæplega 1,9 milljarðar króna. Önnur trúfélög skipta svo á milli sín rúmlega 1,2 milljarði króna.
Rúmur helmingur vill aðskilnað
Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði að einungis 15 prósent landsmanna eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup.
Alls sögðust 51 prósent landsmanna að þeir vildu aðskilnað ríkis og kirkju. Hlutfallið lækkaði lítillega frá árinu 2019 þegar 55 prósent sögðust á þeirri skoðun en það hefur verið yfir 50 prósent í næstum árlegum könnunum Gallup frá árinu 2007.
Í þjóðarpúlsinum sást að fólk undir fertugu er helst hlynnt aðskilnaði.
Telur samkomulagið kosta ríkið yfir 100 milljarða
Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdastjóri lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar, skrifaði grein á Vísi fyrir tæpum mánuði síðan þar sem hann færði rök fyrir því að kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 væru óhagstæðustu samningar Íslandssögunnar. Hann sagði að þeir myndu að endingu kosta ríkið yfir 100 milljarða króna og skila litlu sem engu til baka.
Í grein Siggeirs sagði að fasteignamat þeirra kirkjujarða sem væru enn í eigu ríkisins væri undir 2,8 milljörðum króna. Uppreiknað virði þeirra jarða sem hefðu verið seldar væri um 4,2 milljarða króna. Því væri uppreiknað heildarviðir jarðanna um sjö milljarðar króna. Það er minna en samanlagðar heildargreiðslur ríkissjóðs til þjóðkirkjunnar á árunum 2021 og 2022.
Siggeir sagði í grein sinni að þegar samkomulagið væri á enda runnið væri ríkið búið að greiða vel yfir 100 milljarða króna fyrir jarðirnar.