Framfarastuðull (e. Genuine Progress Indicator) gæti verið betur til þess fallinn að gera grein fyrir efnahagslegri velferð þjóðarinnar heldur en sá mælikvarði sem helst er notaður nú til dags. Sá mælikvarði sem stuðst er við í dag er breyting á vergri landsframleiðslu en breytingin, verði aukning á landsframleiðslunni, er í daglegu tali kölluð hagvöxtur. Þetta segir David Cook nýdoktor í umhverfis- og auðlindafræði, í nýjasta þætti Ekon. Samkvæmt Cook getur framfarastuðull aðstoðað stjórnvöld við að skilja betur þjóðhagfræðilega stöðu Íslands til þess að auka velferð á Íslandi.
Cook aðlagaði framfarastuðulinn að íslensku hagkerfi ásamt Brynhildi Davíðsdóttur og þau hafa einnig gert grein fyrir þróun hans fyrir árin 2000 til 2019. Framfarastuðullinn tekur tillit til annarra þátta heldur en hagvaxtarmælikvarðinn gerir, til dæmis óæskilegra umhverfislegra áhrifa sem kunna að hljótast af þeim umsvifum sem falla innan landsframleiðslu. Þannig lækkar gildi framfarastuðulsins ef losun óæskilegra gróðurhúsalofttegunda eykst. Framfarastuðullinn nær einnig til þróunar félagslegra þátta á borð við tekjuójöfnuð – aukist hann, lækkar gildi framfarastuðulsins.
Hagvöxtur tekur ekki tillit til óæskilegra áhrifa
Innleiðing mælikvarða á borð við framfarastuðulinn er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og nú þegar hafa önnur lönd tileinkað sér svipaða mælikvarða til að mæla efnahagslega velferð. Cook segir það óæskilegt að horfa aðeins til hagvaxtar til að meta velferð þar sem hagvaxtarmælikvarðanum var aldrei ætlað að gera grein fyrir velferð. Vissulega sé fylgni á milli stærð hagkerfa og lífskjara en engu að síður eru vissir þættir sem ýta undir hagvöxt taldir slæmir fyrir velferð.
Sem dæmi um slíkt nefnir Cook mengunarslys. „Segjum sem svo að mengunarslys ætti sér stað á Íslandi og mikið magn olíu myndi skola hér á fjörur. Þau umsvif sem leiddu til olíulekans skapa hagvöxt sem og þær aðgerðir sem ráðast þarf í til þess að þrífa upp olíuna. Hagvöxtur mælir einungis hversu mikil umsvif eru í hagkerfinu.“
Cook bendir einnig á hvernig framfarastuðullinn myndi meta áhrif málmbræðslu og túrisma á efnahagslega velsæld. Þessir atvinnuvegir hafa haft mikil jákvæð áhrif á hagvöxt á undanförnum áratugum. Fylgifiskur aukinnar málmbræðslu og aukins fjölda ferðamanna er mikil aukning á útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem hefur engin áhrif á mælingu hagvaxtar. Framfarastuðullinn myndi aftur á móti taka mið af útblæstrinum og þannig gera betur grein fyrir því hvaða áhrif þessir atvinnuvegir hafi á efnahagslega velferð.
Hægt er að hlusta á viðtal Emils Dagssonar við David Cook í nýjasta þætti Ekon í myndbandinu hér fyrir neðan. Þættirnir Ekon eru styrktir af Háskóla Íslands, sem styður vísindamenn til virkrar þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar. Einnig er hægt að hlusta á Ekon á Soundcloud.