„Það gerist reglulega að efnameiri fangar eða aðstandendur þeirra bjóði Fangelsismálastofnun hitt og þetta að gjöf, en það er ákaflega skýr regla í þessu hjá mér. Ef menn vilja setja peninga í fangelsismál, sem er gott, þá eiga þeir að snúa sér að Alþingi sem aftur á að setja þá inn í fjárlög Fangelsismálastofnunar. Við erum ekki að þiggja mútur né þiggja fé með öðrum hætti,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar í samtali við Kjarnann.
Sögusagnir eru á kreiki um að Ólafur Ólafsson, sem afplánar fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm á Kvíabryggju fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða, hafi beitt sér fyrir lagningu ljósleiðara í fangelsið.
„Nei, það er ekki rétt,“ segir forstjóri Fangelsismálastofnunar í samtali við Kjarnann og hlær. „Ég var búinn að heyra þetta og að hann væri líka búinn að kaupa færanlegar kennslustofur, en þetta er ekki rétt.“
Auk Ólafs, sem oftast er kenndur við Samskip, afplána þeir Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri bankans í Lúxemborg, allir þunga dóma á Kvíabryggju fyrir aðild sína að Al-Thani fléttunni.
Aðspurður um hvort Kaupþingstopparnir fyrrverandi hafi reynt að hafa áhrif á aðstöðu í fangelsinu, segir Páll svo ekki vera. „Þeir hafa ekkert boðið, af því að þeir hafa rænu á að það gengur ekki. Hins vegar þegar Árni Johnsen sat inni, þá voru gefin rúm og sitt hvað fleira, en svona ganga hlutirnir ekki fyrir sig í dag. Við erum vonandi og væntanlega að fá ljósleiðara á Kvíabryggju, en við höfum lengi unnið að því. Auðvitað veit ég ekkert hvort einhver hafi kippt í einhverja spotta vegna þess, en mér er að minnsta kosti ekki kunnugt um það.“