Ríkustu tíu prósent Íslendinga juku eign sína í verðbréfum um 53,8 milljarða króna í fyrra. Heildaraukning í eign á verðbréfum, sem eru að uppistöðu hlutabréf og skuldabréf, á meðal allra landsmanna var upp á 69,2 milljarða króna. Því eignaðist efsta tíundin, rúmlega 22 þúsund einstaklingar, í tekjustiganum 78 prósent af virði nýrra verðbréfa á síðasta ári.
Þetta má lesa út úr tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir landsmanna sem birtar voru í síðasta mánuði. Þær tölur taka ekki með í reikninginn hlutdeild landsmanna í eignum lífeyrissjóða, sem eiga stóran hluta allra verðbréfa á Íslandi.
Þrátt fyrir að eitt risastórt hlutafjárútboð – í Icelandair Group – hafi farið fram í fyrra og litlum hluthöfum skráðra félags hafi fjölgað mikið – úr átta í 32 þúsund – á síðasta ári þá var staðan í árslok samt sem áður sú að ríkustu tíu prósent landsmanna áttu enn 85 prósent af öllum verðbréfum í eigu einstaklinga hérlendis.
Þetta gæti hafa breyst eitthvað í ár, sérstaklega með skráningu Íslandsbanka á markað þar sem þúsundir einstaklinga skráðu sig fyrir litlum hlutum, en ólíklegt er að það hafi mikil áhrif á heildarmyndina í ljósi þess hversu litlar upphæðir er um að ræða.
Nánast sama staða og 2010
Árið 2010 var heildareign þjóðarinnar í verðbréfum metin á 374 milljarða króna. Af þeirri tölu átti efsta tíundin 312 milljarða króna í slíkum eignum, eða rúm 83 prósent. Uppgefið virði allra verðbréfa í eigu Íslendinga hafði þá dregist saman um fjórðung síðan í árslok 2007, enda bankahrun átt sér stað í millitíðinni. Þar er þó einungis um tap að nafnvirði að ræða þegar kemur að hlutabréfum. Þorri þeirra var metinn mun hærra að markaðsvirði og bókhaldslegt tap þeirra sem héldu á bréfum í skráðum félögum þegar þau urðu verðlaus í hruninu mun hærra.
Níu af hverjum tíu nýjum krónum fara til efsta lagsins
Á áratug hefur heildarvirði verðbréfa sem gefin eru upp í skattskýrslu landsmanna aukist um 253,2 milljarða króna. Af því heildarvirði hafa 222,3 milljarðar króna lent hjá efstu tíundinni, eða 88 prósent.
Frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst í mars í fyrra hefur úrvalsvísitalan rúmlega tvöfaldast. Virði Arion banka hefur þrefaldast. Virði Íslandsbanka frá skráningu í júní 2021 hefur aukist um næstum 50 prósent. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga hefur farið úr því að vera 1.067 milljarðar króna í að vera 2.288 milljarðar króna, en vert er að taka fram að fjögur félög hafa verið skráð á hlutabréfamarkaðina tvo, Aðalmarkað og First North, í millitíðinni.
Sá sem átti t.d. eins milljarðs króna hlut í Arion banka í mars í fyrra getur selt hann í dag á þrjá milljarða króna. Þessi hækkun kemur ekki fram í verðbréfaeign hans eins og hún er uppgefin hjá Hagstofu Íslands.
Þar er, líkt og áður sagði, einungis miðað við kaupverðið sem viðkomandi greiddi fyrir hlutinn. Í ljósi þess að efsta tíundin heldur á 88 prósent af nafnvirði verðbréfa má ætla að hún taki til sín svipað hlutfall af þeirri virðisaukningu sem hefur orðið á hlutabréfum vegna aðgerða stjórnvalda.