Það virðist ekki skipta neinu máli hversu oft Elizabeth Warren segir að hún ætli sér ekki í forsetaframboð í Bandaríkjunum. Hún er samt sem áður spurð um mögulegt forsetaframboð í nánast hverju einasta viðtali sem hún fer í. Hún fór síðast í stórt viðtal hjá The Today Show í morgun þar sem hún var spurð um málið.
„Nei. Ég ætla ekki í framboð og ég mun ekki fara í framboð,“ svaraði hún og fylgdi því eftir með því að segja aftur „Ég ætla ekki í framboð. Ég ætla ekki í framboð.“ Warren sagði að hún væri í frábæru starfi sem öldungardeildarþingmaður í Washington og hún væri að vinna að þeim málefnum sem almenningur í Massachusetts hefði kosið hana til að vinna að. Hér að neðan má sjá viðtalið við Warren í morgun.
Warren hefur verið talin sá frambjóðandi sem gæti hvað helst veitt Hillary Clinton samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins. Þrátt fyrir ítrekanir á ítrekanir ofan um að hún ætli ekki að bjóða sig fram hefur það ekki þaggað niður í fólkinu sem vill fá hana fram. „Ready for Warren“ og „Run Warren Run“ eru tveir hópar sem hafa hvað helst haft sig í frammi í þessu. Stuðningsfólk hennar hefur efasemdir um Clinton og telur hana of hægrisinnaða, of tengda stjórnmálaelítu landsins og of nána Wall Street og auðvaldinu. Warren hefur tjáð sig mikið um misskiptingu auðs og fjármálakerfið og það eru meðal hennar helstu baráttumála.
Enn hefur enginn stór frambjóðandi lýst yfir framboði til útnefningar Demókrataflokksins.