„Tíu ár og ég fæ enn kökk í hálsinn þegar ég hugsa um örvæntinguna sem ríkti hjá þeim sem voru að leita að fjölskyldumeðlimum, þá sem sátu stjarfir og horfðu út í loftið eftir missi, þá sem sögðu manni sögur af börnunum sem þeir gátu ekki bjargað og horfðu á hverfa í flóðbylgjunni og svo mætti áfram telja. Reglulega sé ég þetta fyrir mér, heyri grátinn, sé tilkynningatöflurnar þar sem fólk auglýsti eftir sínum nánustu, finn lyktina....“
Þetta segir Steingrímur Sævarr Ólafsson á Facebook síðu sinni í dag, í tilefni af því að tíu ár eru frá einum mannskæðustu náttúruhamförum í sögunni, þegar um tvö hundruð þúsund manns létust þegar flóðbylgja skall á Tælandi og eyjum í nágrenni. Steingrímur Sævarr var í hópi Íslendinga sem voru sendir á svæðið fljótlega eftir atburðina hörmulegu til að aðstoða fólk á svæðinu.
https://www.youtube.com/watch?v=RDOuwMj7Xzo
Á síðu sinni lýsir Steingrímur Sævarr því sem fyrir augu bar með áhrifamiklum hætti, og segir ferðina hafa gjörbreytt viðhorfi sínu til lífsins. Orðrétt segir hann:
„Fyrir tíu árum sléttum sat ég heima hjá mér að hita upp jólagrautinn og narta í síðustu rjúpnalærin, algjörlega grunlaus um þær skelfilegu hamfarir sem voru að bresta á í Asíu þegar flóðbylgjan mikla skall á með þeim afleiðingum að um 200.000 manns létust.
Steingrímur Sævarr Ólafsson.
Enn síður grunaði mig að milli jóla og nýárs fengi ég símtal úr forsætisráðuneytinu þar sem ég var beðinn um að fara í sjúkraflug til Tælands til að sækja slasaða Svía og flytja til síns heima.
Hópurinn sem fór út var gríðarlega vel skipaður læknum, hjúkrunarfólki, björgunarsveitarmönnum, skipuleggjendum, starfsmönnum sjúkrabíla og svo mætti áfram telja. Og þá vantaði einn sem gæti verið tengiliður milli yfirvalda á Íslandi, Tælandi og í Svíþjóð, einhvern sem gæti mögulega kjaftað sig út úr óvæntum vandræðum, einhvern sem gæti bjargað sér á skandinavísku, einhvern sem gæti skrifað um þetta og miðlað áfram. Símtalið sem mér barst kom mér jafn mikið á óvart og fjölskyldunni, sem eftir stutta umhugsun, gaf blessun sína fyrir því að ég tæki verkefnið að mér. Dagarnir sem í hönd fóru fyrir sléttum tíu árum eru jafn skýrir og þeir hefðu gerst fyrir ári síðan. Skyndikúrsar í hinu og þessu, bólusetningar, skipulagningarfundir, kynnast hetjunum sem sinntu alvöru verkefnunum í ferðinni og síðast en ekki síst að undirbúa sig andlega.
Eins og maður hefði getað undirbúið sig undir það sem blasti við manni við komuna til Tælands.
Tíu ár og ég fæ enn kökk í hálsinn þegar ég hugsa um örvæntinguna sem ríkti hjá þeim sem voru að leita að fjölskyldumeðlimum, þá sem sátu stjarfir og horfðu út í loftið eftir missi, þá sem sögðu manni sögur af börnunum sem þeir gátu ekki bjargað og horfðu á hverfa í flóðbylgjunni og svo mætti áfram telja. Reglulega sé ég þetta fyrir mér, heyri grátinn, sé tilkynningatöflurnar þar sem fólk auglýsti eftir sínum nánustu, finn lyktina...
Það er óhætt að segja að þetta hafi verið ferðalag sem ég kom ekki samur til baka úr. Hún gerbreytti lífsviðhorfi mínu, hugmyndum mínum um verðmæti, vináttu, fjölskyldubönd og raunar öllu.
Þú getur ekki breytt gærdeginum og þú veist ekki hvernig morgundagurinn er; nýttu daginn í dag til hins ítrasta til að gera góða hluti, leyfa fjölskyldu og vinum að finna að þú ert til staðar. Dagurinn í dag skiptir máli.“