Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, var gestur Sigmars Guðmundssonar í Kastljósinu á RÚV í kvöld. Eins og kunnugt er hófust verkfallsaðgerðir lækna á miðnætti, en þetta er í fyrsta skipti sem læknar fara í verkfall hér á landi.
Læknar hafa ekki viljað kynna launakröfur sínar opinberlega, en talið er að þær hljóði upp á ríflega 30 prósenta launahækkun að lágmarki. "Við erum að tala um verulegar kjarabætur, ég get staðfest það, en við höfum ekki talið skynsamlegt að fara út í karp um prósentur og einstaka tölur í fjölmiðlum," sagði Þorbjörn aðspurður í Kastljósi um launakröfur lækna.
Þorbjörn segir lækna finna fyrir stuðningi og meðbyr frá almenningi. "Ég held að þjóðin skilji það að læknar þurfa að fá kjarabót." Hann segir verulegar kjarabætur verða að koma til til að sporna við atgervisflótta lækna. "Þetta snýst um framtíð læknisþjónustu á Íslandi. Okkur finnst krafa okkar sanngjörn til að fyrirbyggja upplausn í heilbrigðiskerfinu, ef fólk kemur ekki aftur heim til að vinna."
Launakröfur lækna eru ekki síst til að trekkja frekar unga lækna aftur heim til Íslands eftir læknanám erlendis. "Við verðum að fá nýja þekkingu til landsins. Við höfum þegar glatað einni kynslóð, þeir sem eru búnir að vera úti lengur en í tíu ár eru mjög líklegir til að koma ekki aftur heim."
Aðspurður um viðbrögð lækna ef verkfall þeirra verður stöðvað með lagasetningu, svaraði Þorbjörn: "Ég held að það væri óheillaskref að fara þá leið, læknar yrðu mjög óhressir með það."
Yfirstandandi verkfall nær til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni auk heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og hluta Landspítala. Á miðvikudag hefst svo annað tveggja daga verkfall og fleiri eru boðuð. Hátt í átta hundruð læknar munu taka þátt í verkfallsaðgerðunum.
Kjaraviðræður lækna við ríkið eru í hnút, en næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður hjá Ríkissáttasemjara á miðvikudaginn. Læknafélaginu hafa borist stuðningsyfirlýsingar í dag frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi lífeindafræðinga, frá Ljósmæðrafélagi Íslands og frá Sálfræðingafélagi Íslands.