Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, spurði Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hver bæri ábyrgð á ófullburða flutningskerfi raforku og þeirri stöðu sem blasti við mönnum víða um land í orkumálum. Ráðherrann sagði að hann myndi ekki sitja með hendur í skauti þegar kemur að þessum málaflokki og að Íslendingar þyrftu að sjá til þess að það væri ekki einungis raforkuöryggi hér á landi heldur þyrfti einnig að vera framboð af endurnýjanlegri orku.
Þorgerður Katrín sagðist í upphafi fyrirspurnar sinnar vilja ræða við Guðlaug Þór um raforkuöryggi. „Það er mál sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki í samfélaginu um árabil, ekki síst á vakt þessarar ríkisstjórnar og þeirrar fyrri. Orkumálin hafa einnig, vel að merkja, verið sérstaklega á könnu Sjálfstæðisflokksins síðustu níu ár og lítið sem ekkert hefur gerst og meira að segja er það þannig að það er eins og óveður og náttúruhamfarir dugi vart til að ríkisstjórninni verði gert rúmrusk í þessum efnum.“
Fram kom í máli hennar að henni fyndist mikið talað en að lítið væri gert. „Það er ekki boðlegt árið 2021 að heimili og fyrirtæki í landinu hafi ekki greiðan aðgang að raforku, að verið sé að mismuna fólki og fyrirtækjum eftir búsetu eða staðsetningu á landinu hvað varðar þessa grundvallarinnviði. Sterkt flutningskerfi er forsenda þess, eins og við vitum, að atvinnulíf og nýsköpun blómstri og blómleg byggð fái að þrífast um allt land.
Það var áhugavert, fannst mér, að sjá stjórnarliðið vakna til lífsins, þessa sömu flokka og hafa borið ábyrgð á flutningskerfinu síðustu níu ár, vegna skerðinga á raforku til stórútgerðarinnar. Það er vissulega grafalvarlegt mál að stórfyrirtækin, hvar sem þau eru á landinu, hafi ekki greiðan aðgang að raforku. En skerðing á raforku hefur verið í gangi á Vestfjörðum, á Suðurnesjum, í Eyjafirðinum og víðar. Ég hef verulegar áhyggjur af því að við séum að fá fjögur ár í viðbót af þessu sama gamla, af miklu tali og miklu hjali, en síðan verði lítið gert,“ sagði þingmaðurinn.
Spurði hún ráðherrann hver skoðun hans væri á þeirri stöðu sem nú væri uppi og því aðgerðaleysi sem ríkt hefði. „Hver er það sem ber ábyrgð á ófullburða flutningskerfi og þeirri stöðu sem blasir við mönnum víða um land í orkumálum?“ spurði hún.
Íslendingar „með algjöra sérstöðu í heiminum“
Guðlaugur Þór svaraði og sagðist geta tekið undir margt sem kæmi fram í máli Þorgerðar Katrínar. „Það er bara mjög gott ef þessi málaflokkur fær athygli vegna þess að hann er afskaplega mikilvægur. Háttvirtur þingmaður vísar til einhvers sem okkur finnst vera sjálfsagt sem er raforkuöryggi. En háttvirtur þingmaður rakti það líka að við höfum séð að þar má margt betur fara. Mér finnst hins vegar helst til ósanngjarnt hjá háttvirtum þingmanni að tala eins og ekkert hafi verið gert í því. Hins vegar liggur alveg fyrir að þetta hefur ekki fengið þá athygli sem það ætti að fá. Ég get alveg lofað háttvirtum þingmanni því að sá sem hér stendur mun ekki sitja með hendur í skauti þegar kemur að þessum málaflokki,“ sagði hann.
Fram kom í máli hans að málið snerist ekki einungis að því sem okkur fyndist vera sjálfsagt í dag. „Við erum að fara í orkuskipti aftur. Þegar við gerðum það hér áður var það afskaplega farsælt skref. Lengi vel vorum við — ég veit ekki alveg hvort rétt sé að segja að við höfum verið ein í því, en í það minnsta vorum við með algjöra sérstöðu í heiminum þegar kom að því að nota endurnýjanlega orkugjafa. Ég held að við séum örugglega enn þá í fremstu röð. Það liggur alveg fyrir að við höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Við ætlum að vera fremst meðal jafningja og það þýðir bara eitt: Við þurfum að sjá til þess að það sé ekki bara raforkuöryggi hér heldur þarf auðvitað að vera framboð af endurnýjanlegri orku. Það segir sig algjörlega sjálft.“
Hvatti ráðherrann til dáða
Þorgerður Katrín sagði að hún væri nokkuð ánægð með margt í máli ráðherrans. „Hann viðurkennir, og mér finnst það heiðarlegt, að það hafi verið ákveðinn skortur á athygli á þessum málum.“
Hvatti hún ráðherrann til dáða í þessu efni. „Ég hef ekki, frekar en hann, farið um land allt í kjördæmavikunni á síðustu árum og áratugum án þess að raforkumálin séu til umræðu. Ég hef nefnt Suðurnesin, Vestfirði og Eyjafjörðinn. Auðvitað er þetta þegar upp er staðið á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna sem nú eru. Þannig er það bara. Þess vegna fagna ég því ef loksins á að fara að taka svolítið til hendinni og ég vil hvetja ráðherrann áfram til dáða. Hér verða að vera undir sjálfbær sjónarmið, græn orka, grænar fjárfestingar, flutningsöryggi, öryggi fyrir fólkið okkar. Þetta er spurning um jöfn tækifæri og jöfn búsetuskilyrði,“ sagði hún.
Spurði hún í framhaldinu hvað Guðlaugur Þór ætlaði sjálfur að gera. „Hver verða hans fyrstu skref í embætti til að tryggja að flutningsöryggi verði betra þannig að það verði ekkert vafamál hjá fólkinu í landinu hvort jólasteikin fái að vera í ofninum án þess að rafmagn slái út á mörgum heimilum landsins?“
Fagnaði aðhaldinu
Ráðherrann svaraði í annað sinn og þakka Þorgerði Katrínu fyrir brýninguna. „Ég verð hins vegar að upplýsa það hér fyrir framan þing og þjóð að ég mun ekki ná að leysa loftslagsvandann fyrir þessi jól. Það bara liggur fyrir. Við erum að stíga gríðarlega stór skref og það er afskaplega mikilvægt að allir séu meðvitaðir um það. Þetta er græn bylting. Mikið af þessu er þannig, sérstaklega þegar kemur að raforkumálum, að því miður tekur það tíma að undirbúa og líka að framkvæma, við þekkjum það ég og háttvirtur þingmaður. Nú er það ekki þannig að maður komi að auðu borði, það er ekki svo.“
Hann sagðist hins vegar vona að spurning Þorgerðar Katrínar vísaði á það að í þingsal myndu þau taka umræðu um þessi mál og fagnaði hann því að hún veitti honum, ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum aðhald í þessu máli. „Það er nokkuð sem ég fagna mjög og ég vonast til að góð samstaða verði um það sem við förum í.“