Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir að hörð gagnrýni stjórnar Neytendasamtakanna á skipan nýs starfshóps sem á að skoða breytingu á stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála hér á landi hafi komið sér á óvart.
Hún segist hafa rætt við Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna um fyrirhugaða skipan starfshópsins og hann hafi ekki sett fram þær athugasemdir þá sem síðar hafa komið fram.
Í ályktun sem stjórn Neytendasamtakanna sendi frá sér í vikunni sagði að það væri „óásættanlegt“ að fulltrúi atvinnulífs fengi sæti í nefndinni, en enginn fulltrúi neytenda. Svanhildur Hólm framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands er einn þriggja fulltrúa í nefndinni.
Taldi stjórnin að með þessari skipan væri horft „fram hjá neytendum líkt og samkeppnis- og neytendamál komi þeim ekki við“ og gerði stjórn Neytendasamtakanna kröfu um sæti við borðið „til að tryggja að raddir og sjónarmið neytenda komi fram“.
Breki hafi verið upplýstur og ekki gert neinar athugasemdir
Í samtali við Kjarnann kvaðst Lilja endilega vilja bregðast við þessari gagnrýni frá stjórn Neytendasamtakanna.
„Nú er það svo að ráðuneytið er að stórauka samvinnu við Neytendasamtökin. Það vill þannig til að ég ræddi þetta mál við Breka Karlsson og sagði honum að nefndin yrði frekar fáliðuð, þar sem hún væri að fjalla ekki almennt um neytendamál, heldur að fjalla um stofnanaumgjörð, eins og kveður á um í stjórnarsáttmálanum,“ segir Lilja.
Auk þess segir hún að Breki hafi verið „algjörlega upplýstur“ um það að nefndin yrði „í nánu samstarfi við samtökin“ þrátt fyrir að eiga ekki mann við borðið.
„Hann gerði enga athugasemd við þetta þegar við fórum yfir þetta á sínum tíma. Þannig að viðbrögð hans hafa komið mér á óvart og ég held ég geti fullyrt það að samvinna og samstarf við Neytendasamtökin sé með allra mesta móti,“ segir Lilja við Kjarnann.
Starfshópurinn sem um ræðir var skipaður af Lilju 24. ágúst. Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar er formaður hópsins og Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar situr einnig í honum, ásamt Svanhildi Hólm.
Meginmarkmið hópsins, sem á að skila tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2023, er að finna leiðir til að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi viðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.