Kosningabaráttan í Bretlandi er farin á fullt enda aðeins fimm vikur til kosninga. Mikil spenna ríkir fyrir tveggja klukkustunda rökræðum milli leiðtoga flokkanna, sem verður sjónvarpað í kvöld. Þetta verður í fyrsta og eina skiptið sem leiðtogar allra sjö flokkanna sem bjóða fram koma saman með þessum hætti.
Sjónvarpsstöðin Sky er, líkt og aðrir breskir fjölmiðlar, með umfangsmikla umfjöllun um kosningarnar. Fjölmiðillinn hefur þó farið óvenjulega leið til að auglýsa umfjöllun sína. Búið er að klippa saman myndbúta af leiðtogum flokka við lagið I Swear með hljómsveitinni Boyz 2 Men. Lagið kallar fjölmiðillinn Ballot Ballad - ballöðuna um kjörseðilinn, og gerir grín að loforðaflaumi stjórnmálaflokkanna í kosningabaráttu.
Sjón er sögu ríkari.