„Samstarf okkar Róberts hefur að mestu leiti verið farsælt. Það myndaðist hinsvegar alvarlegur ágreiningur á milli okkar sumarið 2018 og aftur í september 2020, þegar Róbert bar háttsetta embættismenn á Íslandi, alþjóðlegan fjárfesti og íslenskan blaðamann þungum sökum. Í tugum tölvupósta og textaskilaboða Róberts eru umræddir óvildarmenn bornir þungum sökum, sem ég tel að hafi í senn verið algjörlega ósannar og svívirðilegar.“
Þetta segir Halldór Kristmannsson, náin samstarfsmaður Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, og fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Alvogen og Alvotech, í yfirlýsingu sem hann sendi á fjölmiðla í dag.
Tilefni yfirlýsingarinnar er að Halldór steig fram í Morgunblaðinu í morgun og greindi frá því að hann hefði lagt fram kvörtun til stjórnar Alvogen vegna stjórnarhátta og ósæmilegrar hegðunar Róberts Wessman í janúar síðastliðnum. Stjórn fyrirtækisins hefur, eftir rannsókn, komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir Halldórs séu tilhæfulausar en hann sjálfur segir að um hvítþvott sé að ræða.
Á meðal gagna sem Halldór segist hafa lagt fram eru tugir tölvupósta og textaskilaboða, sem eiga að sýna hvernig hann var beittur óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts, sem hann bar þungum sökum.
Vildi ekki koma höggi á aðila í fjölmiðlum
Í yfirlýsingunni í dag segir Halldór að hann hafi lagt fram ofangreind gögn og óskað eftir því formlega við Róbert og stjórnir bæði Alvogen og Alvotech að þau svari þessum ásökunum. Hann hafi jafnframt sett sig í samband við alla þá aðila sem hann telur Róbert hafa valdið skaða og telur rétt að Róbert biðji þá afsökunar.
Halldór segir að hann hafi talið „fulla ástæðu til þess að setja fótinn niður og tjáði Róbert ítrekað, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjölmiðlum og vega beinlínis að æru og mannorði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgefandi Mannlífs, sem Róbert fjármagnaði og átti, en þar myndaðist til að mynda mikill ágreiningur um ritstjórnarstefnu og sjálfstæði. Úr þessu skapaðist vaxandi ósætti okkar á milli, sem gerði það að verkum að ég steig nauðbeygður til hliðar tímabundið, og upplýsti stjórnir fyrirtækjanna um málavexti. Ég vil standa vörð um ákveðin siðferðisleg gildi, og lét því ekki hagga mér í þessum málum.“
Morðhótanir sendar árið 2016
Í yfirlýsingu Halldórs segir að í ítarlegri greinargerð sem hann hafi skilað til stjórna Alvogen og Alvotech sé skorað á þær að taka líflátshótanir og ógnandi textaskilaboð Róberts til sérstakrar rannsóknar, en þar sé fyrrverandi samstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra ógnað.
Á vef RÚV segir að skilaboðin hafi farið, á nítján klukkustunda tímabili í upphafi árs 2019, til tveggja stjórnenda í lyfjaheiminum og fyrrum samstarfsmanna hjá Alvogen, sem höfðu borið vitni í dómsmáli sem rekið var hér á landi og Róbert átti aðild að.
„Ég mun drepa þig“, „Ég mun eyðileggja þig og fjölskyldu þína“ og „Þú ert dauður, ég lofa þér því“ er á meðal þess sem sjá má í skilaboðunum, samkvæmt frétt RÚV.
Þá sé enn sorglegra að viðurkenna, að hafa orðið persónulega fyrir líkamsárás og orðið vitni af annarri frá Róbert, þegar hann var undir áhrifum áfengis á viðburðum fyrirtækisins erlendis. „Þegar ég síðar nefndi þetta við Róbert sagðist hann hafa verið að grínast og við hefðum verið í kýlingaleik. Ég var beinlínis kýldur kaldur í andlitið án fyrirvara í vitna viðurvist. Mér var augljóslega ekki skemmt, og hef ekki orðið var við það almennt séð að forstjórar fari í kýlingaleiki við samstarfsmenn.“
Telur niðurstöðuna hvítþvott
Fyrir tæpri viku síðan sendi stjórn Alvogen frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að henni hafi borist bréf 20. janúar síðastliðinn frá fyrrverandi starfsmanni fyrirtækisins þar sem kvartað var yfir hegðun Róberts Wessman. Óháð nefnd hafi verið sett á fót til að kanna innihald kvörtunarinnar og Róbert sagði sig frá störfum fyrir Alvogen á meðan að sú athugun fór fram.
Halldór segir niðurstöðu rannsóknar sé augljós hvítþvottur undir áhrifum Róberts. „Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi hans sem stjórnanda. Hinsvegar vona ég að þessi fyrirtæki blómstri í framtíðinni, þannig að ég sem hluthafi, geti verið stoltur af framgangi þeirra.“