Eggert Skúlason, ritstjóri DV, skrifaði á Facebook-síðu sína svar við yfirlýsingu Jóhanns Páls Jóhannssonar þar sem Jóhann greindi frá því að hann hefði sagt upp störfum sem blaðamaður á DV. Eggert segir í svari sínu hafa haldið fund með starfsmönnum DV eftir ráðningu sína þar sem „allir gætu blásið og sagt sínar skoðanir á mér [Eggerti] og málefnum almennt.“
Jóhann Páll hafi hins vegar ekki verið viðstaddur fundinn. Eggert greinir svo frá því að hann hefði ekki fjallað um Lekamálið með sama hætti og DV gerði þegar Reynir Traustason var ritstjóri. Jóhann Páll og Jón Bjarki Magnússon leiddu lengi umfjöllun fjölmiðla um Lekamálið og hlutu meðal annars blaðamannaverðlaun fyrir umfjöllun um málefni hælisleitenda.
„Ég hefði aldrei birt allt það magn frétta sem blaðið og vefmiðillinn gerði, það var einfaldlega ekki þörf á því,“ segir Eggert á Facebook. „Ég fylgdist með umfjöllun um þetta mál og endalausar fréttir hreinlega rugluðu mig í rýminu.“ Hann bætir því svo við að DV muni halda áfram að fjalla um lekamálið og leiða það mál til lykta, þegar nýjar upplýsingar berast.
Stöðuuppfærslu Eggerts má lesa hér að neðan.
Stöðuuppfærsla Eggerts
Jóhann Páll blaðamaður á DV sendi mér uppsagnarbréf í morgun. Hann er hættur. Þetta eru fyrstu beinu samskiptin sem við Jóhann Páll eigum. Pínu vonbrigði því ég held að Jóhann Páll sé skarpur og öflugur blaðamaður og hefði verið gaman að kynnast honum á þeim vettvangi. En einn hlut verð ég að leiðrétta sem kominn er í opinbera umfjöllun frá honum. Á mínum fyrsta ritstjórnarfundi á DV á föstudag, óskaði ég eftir því að í lok fundar myndum við (viðstaddir blaðamenn og ég) eiga trúnaðarsamtal þar sem allir gætu blásið og sagt sínar skoðanir á mér og málefnum almennt. Enginn gerði athugasemdir við þennan trúnað. Jóhann Páll var ekki á fundinum. Ég var spurður hvort ég hefði höndlað lekamálið með sama hætti og DV gerði. Ég svaraði neitandi. Ég útskýrði mál mitt með þeim hætti að ég hefði aldrei birt allt það magn frétta sem blaðið og vefmiðillinn gerði, það var einfaldlega ekki þörf á því. Ég fylgdist með umfjöllun um þetta mál og endalausar fréttir hreinlega rugluðu mig í rýminu. Ég sagði að ég hefði birt allar fréttir sem hefðu haft að geyma viðbótarupplýsingar, en fréttaflóðið fannst mér um tíma óþarflega mikið.
DV mun halda áfram að fjalla um lekamálið og leiða það mál til lykta, eftir því sem við komumst yfir upplýsingar. Því geta lesendur og blaðamenn DV treyst.
Mér finnst miður að trúnaðarsamtöl af ritstjórn DV skuli hafa komist í opinbera umræðu. Ég ætla ekki að stæla við Jóhann Pál enda enginn starfsmaður nokkurs fyrirtækis stærri en fyrirtækið sjálft, gildir þá einu hvort er um að ræða verðlaunablaðamann eða nýjan ritstjóra.
DV verður dæmt af verkum sínum og við erum í óða önn að setja saman öflugt helgarblað sem verður gaman að fá viðbrögð við.
Já og bara eitt að lokum. Veit einhver hver skráði mig í Framsóknarflokkinn?