Öryggissveitir Egypta drápu fyrir mistök tólf ferðamenn í gær, í aðgerðum sem áttu að beinast gegn hryðjuverkamönnum. Tólf manns til viðbótar slösuðust en lifðu af þegar öryggissveitirnar réðust að bílum ferðamannanna.
Í tilkynningu frá stjórnvöldum í Egyptalandi segir að ferðamennirnir hafi verið á svæði þar sem umferð er bönnuð. Talið var að á ferðinni væri hópur hryðjuverkamanna og var ákveðið að ráðast á hann úr lofti. Ferðamennnirnir hafi ekki látið vita af ferðum sínum.
Í umfjöllun BBC um málið eru skýringar egypskra stjórnvalda dregnar í efa og hefur fréttastofan eftir heimildarmanni að ferðamennirnir hafi upplýst um ferðaáætlanir sínar og hafi um tíma haft lögreglufylgd.
Tveir hinna látnu og minnst fimm hinna slösuðu eru ferðamenn frá Mexíkó. Forseti landsins, Enrique Pena Nieto, tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum þar sem hann fordæmdi árás Egypta. Hann kallar eftir ítarlegri rannsókn atburðunum.
Ferðamennirnir voru drepnir í eyðimörkinni í vesturhluta Egyptalands. Öryggissveitir Egypta hafa þar barist gegn vígamönnum íslamista og töldu bílalestina á þeirra vegum.