Virði Þórsmerkur, eiganda útgáfufélags Morgunblaðsins og tengdra miðla, var metið 614 milljónir króna í upphafi árs. Þetta má lesa út úr ársreikningi Hlyns A ehf., félags í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyja, og barna hennar og eins stærsta hluthafa Þórsmerkur. Hluturinn í fjölmiðlafyrirtækinu er eina eign Hlyns A.
Í reikningnum kemur fram að hlutur Hlyns A, sem er 18,49 prósent, sé metinn á 113,6 milljónir króna og að virði hans hafi lækkað um 15 milljónir króna í fyrra. Alls hefur Hlynur A sett 168 milljónir króna inn í Þórsmörk og því myndi félagið tapa um þriðjungi af fjárfestingu sinni ef hluturinn yrði seldur á bókfærðu verði í dag.
Hlynur A er næst stærsti einstaki hluthafinn í Þórsmörk á eftir Íslenskum Sjávarafurðum, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og á 19,4 prósent hlut. Auk þess á Ísfélag Vestmannaeyja beint 8,99 prósent hlut í Þórsmörk og því eiga Guðbjörg og aðilar tengdir henni samtals 25,5 prósent hlut.
Eigendur hafa greitt með rekstrinum árum saman
Eina eign Þórsmerkur er Árvakur, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is sem einnig rekur útvarpsstöðina K100. Frá því að nýir eigendur tóku við Árvakri árið 2009 er samandregið tap félagsins yfir 2,5 milljörðum krónum. Eigendahópurinn hefur lagt félaginu til rúmlega 1,9 milljarð króna til að mæta því tapi.
Sá munur var á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla árið 2020 miðað við árið 2019 að í fyrra ákvað Alþingi að veita rekstrarstuðning til þess að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldursins, og studdi við fyrirtæki með ýmsum öðrum hætti.
Rekstrarstyrkurinn sem Árvakur fékk nam alls 99,9 milljónum króna, en eitt hundrað milljóna króna þak var á styrkjum til hvers fjölmiðlafyrirtækis. Alþingi samþykkti undir lok maí að sambærilegir styrkir yrðu áfram veittir einkareknum fjölmiðlum út næsta ár.
Í ársreikningi Þórsmerkur segir að COVID-19 faraldurinn hafi leitt til minnkandi tekna samstæðunnar auk þess sem ýmis kostnaðaraukandi áhrif voru vegna íþyngjandi sóttvarna- og umgengnisreglna til að minnka smithættu. „Stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða til að mæta efnahagslegum áhrifum af faraldrinum og einnig erfiðu rekstrarumhverfi fjölmiðla. Samstæðan nýtti sér hluta af þeim aðgerðum sem í boði voru.“ Ekki er sérstaklega tiltekið hvaða aðgerðir voru nýttar.
Mikið tap árum saman og fallandi rekstur á prenti
Tap Árvakurs í fyrra var það minnsta allt frá árinu 2016, er félagið tapaði 50 milljónum króna. Árið 2017 nam tapreksturinn 284 milljónum og árið 2018 var útgáfufélagið rekið með 415 milljóna króna tapi og 210 milljóna króna halla árið 2019.
Lestur Morgunblaðsins, sem er stærsti áskriftarmiðill landsins, hefur verið á undanhaldi undanfarin ár. Samkvæmt tölum Gallup um lestur dagblaða á Íslandi lesa nú innan við 20 prósent landsmanna Morgunblaðið og innan við tíu prósent fólks á aldrinum 18-49 ára.
Á sama tíma og lestur prentmiðla dvínar hefur mbl.is, sem um árabil hafði verið mest lesni vefmiðill landsins nær allar vikur ársins samkvæmt vefmælingum Gallup, verið skákað af þeim stalli það sem af er ári. Vísir.is, vefmiðill í eigu Sýnar, hefur náð að taka fram úr hvað fjölda notenda varðar.