Harold Hamm, forstjóri olíuyrirtækisins Continental Resources, er ríkur maður. Í október 2014 var auður hans er metinn á 18,7 milljarði dala, um 2.422 milljarða króna. Það setti hann í 30. sæti yfir ríkustu menn Bandaríkjanna og 76. sæti yfir ríkustu menn heims.
Ljóst er að sá auður hefur eitthvað skroppið saman á síðustu mánuðum samhliða falli á heimsmarkaðsverði á olíu.
Í nóvember skildi Hamm, sem verður sjötugur á þessu ári, við eiginkonu sína til 26 ára, Sue Ann Arnall. Þegar mikil auðævi eru undir í hjónabandi sem staðið hefur í svo langan tíma gengur oft erfiðlega að skipta auðnum á milli hjónanna. Það er tilfellið í skilnaði Hamm og Arnall.
Í gær birti fréttastofan CNBC Twitter-færslu af handskrifaðri ávísun sem Hamm bauð Arnall til þess að ljúka eignarskiptum þeirra á milli. Færsluna má sjá hér að neðan:
Harold Hamm's ex-wife has rejected a $974,790,317.77 hand-written divorce check. http://t.co/aPJb3pqY62 pic.twitter.com/KtJlg6BdRl
— CNBC (@CNBC) January 7, 2015
Samkvæmt ávísuninni, sem er dagsett síðastliðinn mánudag, bauð Hamm fyrrum eiginkonu sinni 974.790.317,77 dali, eða um 126,2 milljarða króna. Arnall hafnaði tilboðinu, sem er upp á rúmlega fimm prósent af ætluðum auð Hamm líkt og hann var í október í fyrra. Hún vill fá hærri upphæð frá fyrrum eiginmanni sínum.
Þetta staðfesti lögmaður hennar í tölvupósti til CNBC.
Auður Hamm hefur likast til dregist mjög saman síðustu mánuði. Hann á 68 prósent hlut í Continental Resources, sem bæði leitar að og vinnur olíu. Í haust var gengi bréfa í félaginu um 60 dalir á hlut. Síðasta skráða gengi í gær var 33,6 dalir á hlut og gengið því nálægt helmingast í kjölfar falls á heimsmarkaðsverði á olíu.