Útgerðarfélag í eigu Páls Jóhanns Pálssonar, þingmanns Framsóknarflokkins og nefndarmanns í atvinnuvegarnefnd, mun fá úhlutað makrílkvóta að verðmæti 50 milljónir króna ef frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra um úthlutun makrílkvóta verður að lögum. Hann telur sig ekki vanhæfan til að fjalla um frumvarpið í atvinnuveganefnd né í þinginu.
Frá þessu var greint í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur einnig fram að bátur í eigu Davíðs Freys Jónssonar, sem situr í sjávarútvegsnefnd Framsóknarflokksins, fái úthlutað makrílkvóta sem metin sé á 200 milljónir króna. Báturinn fær þrefalt meiri kvóta en hann veiddi á síðasta ári.
Tekjur vegna makríls um og yfir 20 milljarðar á ári
Sigurður Ingi lagði fram frumvarp á Alþingi um úthlutun á makrílkvóta rétt fyrir páska. Samkvæmt frumvarpinu verður aflahlutdeildum (kvóta) úthlutað niður á skip í áþekkum hlutföllum og á yfirstandandi fiskveiðiári. Enda byggir úthlutunin á núverandi fiskveiðiári á veiðireynslu fyrri ára. Útgerðir skipa og báta sem hafa aflareynslu frá árunum 2011-2014 fá aflahlutdeild í makríl úthlutað. Hömlur eru á viðskiptum með aflaheimildir. Framsal verður óheimilt en tilflutningur milli skipa innan sömu útgerðar verður heimil. Þetta þýðir að makrílkvótinn mun ekki geta gengið kaupum og sölum á milli útgerða líkt og tíðkast með aðrar tegundir innan kvótakerfisins. Í það minnsta ekki fyrst um sinn.
Um gríðarlega hagsmuni er að ræða, enda hafa tekjur útgerðarfélaga vegna makríls verið um og yfir 20 milljarðar króna á ári undanfarin ár.
Telur sig hafa mikla þekkingu og ekki vera vanhæfan
Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að útgerðarfélag eiginkonu Páls Jóhanns fái úthlutað makrílkvóta að verðmæti 50 milljónir króna ef frumvarpið fær fram að ganga. Í samtali við blaðið segist Páll Jóhann ekki telja sig vanhæfan til að vinna að frumvarpinu þótt eiginkona hans verði eigandi að makrílkvóta verði það að lögum. „Nei, ég tel mig ekki vanhæfan. Ég tel mig hafa það mikla þekkingu á sjávarútvegi að ég geti tjáð mig um málið í þinginu.“