Upplýst hefur verið um endanlega eigendur á 18,6 prósent eignarhlut í 365 miðlum á heimasíðu Fjölmiðlanefndar. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið tregir til að upplýsa um hver eigendur Auðar 1 fjárfestingasjóðs, sem stýrt er af fjármálafyrirtækinu Virðingu, séu. Fjölmiðlanefnd óskaði eftir frekari upplýsingum um eignarhaldið þann 18. desember síðastliðinn og gaf frest til 5. janúar. Þau svör sem bárust fyrir þann tíma þóttu ekki fullnægjandi og því var óskað eftir ítarlegri upplýsingum. Þær hafa nú borist. Á meðal eigenda eru margir helstu eigendur Virðingar, íslenskir lífeyrissjóðir og kröfuhafar hins fallna banka Glitnis.
Eignarhald Auðar 1 er eftirfarandi:
AC eignarhald hf., 10,6%. Hlutaskrá AC eignarhalds má nálgast hér.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, 9,4%
Sameinaði lífeyrissjóðurinn, 6,3%
Stapi, lífeyrissjóður, 6,3%
Berglind Björk Jónsdóttir, 6,3%
Monóna ehf., eigandi Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, 6,3%
Stafir lífeyrissjóður, 4,7%
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, 4,7%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, 4,7%
Almenni lífeyrissjóðurinn, 4,7%
Glitnir Eignarhaldsfélag, eigendur kröfuhafar Glitnis banka, 4,7%
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, 4,7%
Festa lífeyrissjóður, 3,1%
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, 3,1%
Ingunn Wernersdóttir, 3,1%
Arkur ehf., eigandi Steinunn Jónsdóttir, 3,1%
Hlutdeild, deild Vinnudeilusjóðs SA, 3,1%
Lífeyrissjóður verkfræðinga, 1,6%
Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, 1,6%
Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, 1,6%
Erna Gísladóttir, 1,6%
Heiðarlax ehf., eigandi Rudolf Lamprecht, 1,5%
Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, 1,2%
KP Capital ehf., eigandi Kristín Pétursdóttir, 0,8%
Jón Sigurðsson, 0,8%
Miðeind ehf., eigandi Vilhjálmur Þorsteinsson, 0,8%
Kjarninn hafði greint frá því í lok desember hvernig eignarhaldi Auðar 1 væri háttað að mestu. Langstærsti einstaki eigandi 365 miðla er Ingibjörg Pálmadóttir og félög á hennar vegum með tæplega 80 prósent eignarhlut. Ingibjörg og félög hennar eiga einnig 100 prósent B-hlutabréfa í 365 miðlum.
Afleiðing af sameiningu við Tal
365 miðlar, langstærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, og Tal sameinuðust í desember undir merkjum 365 eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna félaganna, með skilyrðum. Við það eignuðust fyrrum hluthafar Tals 19,8 prósent hlut í sameinuðu félagi, sem mun bera nafn 365 miðla. Stærsti eigandi Tals var Auður 1, sjóður í stýringu hjá Virðingu, en hann á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum eftir að samruninn gekk í gegn. Líkt og tíðkast með framtaks- og fjárfestingasjóði er eignarhald hans ekki opinbert.
Kjarninn óskaði eftir upplýsingum frá fjölmiðlanefnd um hvort kallað hefði verið eftir upplýsingum um hvert endanlegt eignarhald á sjóðnum Auður 1 væri, enda segir í fjölmiðlalögum að nefndin eigi að fá allar upplýsingar og gögn svo „rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar“.
Þau svör fengust upprunalega að nefndin hefði leitað eftir upplýsingum haustið 2014. Þar fengust þær upplýsinga að starfsmenn Virðingar væru stjórnarmenn í Auði 1 og héldi á meirihluta atkvæðisréttar í félaginu. Því skiptu eigendur sjóðsins ekki máli. Það var því mat nefndarinnar að sækjast ekki eftir frekari upplýsingum um eignarhaldið.
Kjarninn fjallaði um málið í kjölfarið og degi síðar hafi fjölmiðlanefnd skipt um skoðun og kallaði eftir frekari upplýsingum um eignarhaldið. 365 miðlar fékk frest til að svara þar til, 5. janúar. Svarið sem barst þótti ekki fullnægjandi og því óskaði fjölmiðlanefnd eftir frekari upplýsingum, sem hafa nú borist.