Eignir íslenskra lífeyrissjóða hafa vaxið um 83 prósent frá árinu 2008. Þær mældust samtals 2.925 milljarðar króna í árslok 2014, og höfðu aldrei mælst meiri, en voru 1.598 milljarðar króna í lok hrunsársins 2008. Séu eignirnar færðar á fast verðlag nemur hækkunin á þessum sjö árum 33,7 prósentum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að ávöxtun eigna lífeyrissjóða hafi gengið vel í fyrra og að meðaltals raunávöxtun þeirra hafi verið 8,7 prósent. Bestum árangri á árinu náði Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga en eignir sjóðsins jukust um 13,4 prósent. Þar á eftir komu Lífsverk lífeyrissjóður með 12,3 prósenta aukningu og Lífeyrissjóður verslunarmanna, næst stærsti sjóður landsins, en eignir hans jukust um 12,2 prósent á árinu. Að meðaltali jukust eignir sjóðanna um slétt 10 prósent á árinu 2014.
Starfandi lífeyrissjóðir í landinu eru 26 og hefur þeim fækkað um einn á milli ára þegar lífeyrissjóður Vestfirðinga rann inn í Gildi lífeyrissjóð um síðustu áramót. Frá árinu 2008 hefur þeim fækkað um ellefu.Mikill stærðarmunur er á sjóðunum og þeir tveir stærstu, LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna, halda á rúmlega eitt þúsund milljörðum króna. Samanlagðar heildareignir tíu minnstu sjóðanna ná hins vegar ekki fimm prósent af heildarstærð lífeyrissjóðakerfisins.
Sé litið fimm ár aftur í tímann hefur raunávöxtun sjóðanna að meðaltali verið 5,1 prósent. Tíu ára meðaltalsávöxtun er hinsvegar 2,3 prósent og þar ræður miklu það mikla högg sem kerfið tók á sig á árinu 2008.