Fróðlegt var að hlusta á dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, stjórnarformann og stofnanda Marorku, og Svavar Svavarsson, deildarstjóra viðskiptaþróunar hjá HB Granda, í umfjöllun Spegilsins á RÚV. Þar ræddu Jón Ágúst og Svavar um hafið, og hversu mikilvægt það væri að draga úr mengun í hafinu og marka til framtíðar stefnu, sem miði að því að vernda þennan mikilvæga hluta íslenskrar náttúru, sem jafnframt er lifandi tenging við umheiminn.
Ísland, sem sjávarútvegsþjóð til áratuga, á mikla hagsmuni undir því að halda hafinu hreinu. Jón Ágúst kallaði eftir því að skýr stefna yrði mörkuð, varðandi verndun hafsins, sem væri hluti af alþjóðlegri stefnu um að draga úr mengun. Ísland hefði nú þegar sett sér það háleita markmið, að minnka losun um 40 prósent fyrir árið 2030, og því þyrfti að nýta tímann vel. Það ætti eftir að útfæra áætlun um þetta mikilvæga mál.
Vonandi voru stjórnvöld að hlusta, þegar þessir reynslumiklu einstaklingar, þegar málefni hafsins eru annars vegar, deildu sýn sinni. Fullt tilefni er til þess að hafa miklar áhyggjur af því að mengun í hafi geti haft slæmar afleiðingar hér á landi, og því þarf að efla rannsóknir á þessu sviði og forgangsraða í þágu náttúrunnar og umhverfisins.