Eimskip hefur keypt hollenska flutningsmiðlunarfyrirtækið Jac. Meisner Internationaal Expeditiebedrijf B.V. Greint var frá þessu á vef Eimskip í dag, en tilkynning um viðskiptin hefur þó ekki verið birt á vef Kauphallar Íslands.
Jac. Meisner var stofnað árið 1959 og er staðsett á hafnarsvæðinu í Rotterdam. Sérþekking fyrirtækisins er á sviði tollskjalagerðar, heilbrigðiseftirlits og móttöku og eftirlits á frystum og kældum vörum hvaðanæva úr heiminum til innflutnings til Evrópulanda, að því er segir í tilkynningu á vef Eimskip. „Árleg velta fyrirtækisins nemur um 7,5 milljónum evra og með áætluðum samlegðaráhrifum við starfsemi Eimskips er gert ráð fyrir að EBITDA hlutfall fyrirtækisins verði á bilinu 8-9%,“ segir í tilkynningunni.
Tólf starfsmenn starfa hjá Jac. Meisner og mun Dick Weijgertze framkvæmdastjóri starfa áfram sem sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
„Flutningsmiðlunargeirinn krefst blandaðra lausna þar sem nýjar flutningalausnir byggja á faglegri reynslu starfsmanna. Með því að sameinast alþjóðlegu flutningsmiðlunarneti Eimskips getum við boðið upp á nýjar flutningalausnir til að tryggja áframhaldandi sterka stöðu Jac. Meisner í Rotterdam með öflugum tengingum fyrirtækisins í Hollandi og öðrum stöðum innan Evrópu,“ segir Dick Weijgertze í tilkynningu.
Gylfi Sigfússon, framkvæmdastjóri Eimskip, segist ánægður með viðskiptin og segir þau styrkja þjónustu félagsins við viðskiptavini. „Ég er ánægður með að Jac. Meisner verði nú hluti af Eimskip og hlakka til að vinna með starfsmönnum fyrirtækisins. Kaupin munu styrkja þjónustu við viðskiptavini Eimskips og viðskiptavinir Jac. Meisner munu einnig njóta góðs af alþjóðlegu flutninganeti Eimskips. Kaupin eru liður í stefnu Eimskips um ytri vöxt og munu styrkja enn frekar alþjóðlega frystiflutningsmiðlun félagsins.“