Einar Þorsteinsson, fyrrverandi fréttamaður og stjórnandi Kastljóss á RÚV, segir að margir hafi hvatt sig til að fara fram fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík. „Ég er að íhuga það alvarlega.“ Þetta kemur fram á mbl.is.
Þar er haft eftir Einari að miðað við „stöðuna í Ráðhúsinu á undanförnu þá er mikilvægt að flokkur sem byggir pólitík sína á samvinnuhugsjón hafi áhrif á ákvarðanatöku þar.“
Einar hefur ekki starfað innan Framsóknarflokksins áður en eiginkona hans, Milla Ósk Magnúsdóttir, er aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins. Einar var formaður félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi á árum áður og var sterklega orðaður við framboð fyrir þann flokk í Kópavogi fyrir skemmstu. Einar og Milla settu hins vegar heimili sitt í Kópavogi á sölu fyrir nokkrum dögum og eru að flytja í Seljahverfið í Reykjavík.
Handboltamarkmaður vill vera númer eitt
Framsóknarflokkurinn reið ekki feitum hesti frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Hann fékk einungis 3,2 prósent atkvæða og náði ekki inn manni í Reykjavík.
Flokkurinn ætlar að stilla upp lista fyrir komandi kosningar í höfuðborginni og því má ætla að ef Einar taki slaginn sé búið að bjóða honum oddvitasæti.
Þegar hefur einn einstaklingur tilkynnt að hann sækist eftir sæti á lista Framsóknar í Reykjavík. Björgvin Páll Gústavsson handboltamarkvörður vill fá 1.-2. sæti á listanum.
Í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook í vikunni sagðist Björgvin vilja „vera hluti af þeirri vegferð, hvort sem það væri að leiða flokkinn eða í öðru sæti á lista. Ég tel að í hvoru sætinu sem er geti ég orðið sá leiðtogi innan kerfisins sem að ég tel að borgin og börnin þurfi á að halda. Börnin okkar eiga að fá hásætið næstu 4 árin og við þurfum öll að taka þátt í að hlúa að þeim.“