Vöxtur einkaneyslu á Íslandi mældist 4,5 prósent á fyrri árshelmingi 2015 samanborið við fyrri árshelming 2014 og hefur ekki verið jafn mikill síðan 2006 eða í níu ár. Einkaneysla ber ásamt fjármunamyndun uppi kröftugan hagvöxt á fyrri helmingi ársins. Þjóðarútgjöld, sem eru samtala einkaneyslu, fjármunamyndunar og samneyslu, jukust um 7,3 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins en alls var hagvöxtur 5,2 prósent á tímabilinu. Af því má ráða að framlag utanríkisviðskipta hafi verið neikvætt en innflutningur jókst um 13,6 prósent og útflutningur um níu prósent.
Þetta kemur fram í greiningu hagfræðideildar Landsbankans um nýjar tölur Hagstofunnar um hagvöxt á fyrri helmingi ársins, en þær voru birtar fyrir helgi. Eins og greiningardeild Íslandsbanka benti á, og Kjarninn fjallaði um, þá er hagvöxturinn sá mesti síðan 2007.
Fram kemur í umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans að hluta af vexti innflutnings megi rekja til fjárfestingavara eins og skipa og flugvéla. „Innflutningur óx aðeins hægar á öðrum fjórðungi en þeim fyrsta. Þannig nam aukningin 14,4% á öðrum fjórðungi borið saman við sama tímabil í fyrra en hraði vaxtarins nam 17,4% á fyrsta fjórðungi. Engu að síður var vöxturinn verulega hraður á öðrum fjórðungi og rétt eins og í tilfelli einkaneyslu þarf að leita allt aftur til ársins 2006 til að finna meiri vöxt á fyrri helmingi ársins. Hluti af þessum vexti innflutnings eru fjárfestingarvörur eins og skip og flugvélar en innflutningur flugvéla var 14,1 ma.kr. meiri en í fyrra og innflutningur skipa 2,6 ma.kr. meiri og skýra þessir tveir liðir stóran hluta af innflutningsvextinum milli ára.“
Þá er bent á að útflutningur, sem jókst um 9 prósent á fyrri árshelmingi borið saman við sama tímabil í fyrra, hafi ekki vaxið jafn mikið síðan árið 2008. „Vöxturinn er fremur borinn uppi af þjónustuútflutningi en vöruútflutningi og má rekja vöxt þjónustuútflutnings að miklu leyti til mikillar aukningar í komum ferðamanna hingað til lands en á fyrri árshelmingi nam hann 29% borið saman við sama tímabil í fyrra. Aukinn vöxt útflutnings á þessu ári má þó einnig skýra að hluta með grunnáhrifum en loðnuvertíðin í fyrra reyndist óvenjuslæm og þurfti því ekki mikla loðnuveiði á þessu ári til að auka útflutning milli ára.“