Aðeins ellefu prósent telja að ríkissjóður eigi að fjármagna Bændasamtökin að mestu eða öllu leyti. 71 prósent telja að ríkið eigi að litlu eða engu leyti að fjármagna Bændasamtökin, 18 prósent telja að ríkið ætti að fjármagna um það bil helming starfseminnar.
Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Viðskiptaráð lét gera á viðhorfi almennings til fjármögnunar stofnana og embætta á Íslandi.
Talsverður munur er á svörunum eftir því hvaða stjórnmálaflokk viðkomandi segist myndu kjósa í dag. Stuðningsmenn Framsóknarflokksins voru líklegri en aðrir til að vilja að ríkið fjármagni Bændasamtökin að miklu eða öllu leyti, eða 21,3 prósent. 14,2 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar sögðust vilja að ríkið fjármagnaði samtökin, og 10 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
2,9 prósent kjósenda Pírata vilja að ríkið fjármagni Bændasamtökin, 4,5 prósent kjósenda Samfylkingarinnar og 7,3 prósent kjósenda VG.
Meirihluti á móti fjármögnun Þjóðkirkju og Íslandspósts
55,6 prósent telja að ríkið eigi ýmist ekki eða að mjög litlu leyti að fjármagna Þjóðkirkjuna. 17 prósent aðspurðra segja að ríkið eigi að fjármagna kirkjuna til helminga en 27,4 prósent telja að Þjóðkirkjan eigi að miklu eða öllu leyti að vera fjármögnuð af ríkissjóði. Mikill munur var á svörum eftir aldri, en þeir yngri eru síður hlynntir ríkisfjármögnun kirkjunnar en þeir eldri.
61,4 prósent aðspurðra eru á þeirri skoðun að ríkið eigi að fjármagna Íslandspóst að litlu eða engu leyti. 20,9 prósent telja að ríkið eigi að fjármagna fyrirtækið að mestu eða öllu leyti og 17,7 prósent telja að ríkið eigi að fjármagna um helming.
38,5 prósent aðspurðra í könnuninni segja að þeim finnist að ríkið eigi að fjármagna Íbúðalánasjóð að öllu eða miklu leyti. 20,5 prósent telur að Íbúðalánasjóður eigi að vera fjármagnaður til helmings af ríkinu en 41 prósent vilja að ríkið hafi litla eða enga aðkomu að fjármögnun sjóðsins. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Pírata eru síst hlynntir því að ríkið fjármagni sjóðinn, en kjósendur Vinstri grænna telja fremur en aðrir að ríkið eigi að fjármagna hann.
46% vilja fjármagna björgunarsveitir
Þá var einnig spurt um fjármögnun björgunarsveita og Rauða krossins. 46 prósent aðspurðra segjast telja að ríkið eigi að fjármagna björgunarsveitanna að öllu eða miklu leyti. 35 prósent vilja að ríkið fjármagni þær um helming og 19 prósent vilja enga eða litla fjármögnun frá ríkinu.
Skoðanir voru einnig skiptar þegar kom að fjármögnun Rauða krossins, en 26,2 prósent vilja að ríkið fjármagni starfsemi hans að öllu eða miklu leyti. 36,9 prósent aðspurðra vilja að ríkið fjármagni starfsemina til helminga og 36,9 prósent vilja að ríkið komi að litlu eða engu leyti að fjármögnuninni.
Sjá má könnunina í heild sinni hér. Úrtakið í könnuninni var rúmlega 800 manns.