Seðlabanki Íslands sendi frá sér þau ánægjulegu tíðindi í gær, að skuld Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri nú uppgreidd. Þetta gerist nákvæmlega sjö árum eftir hið fordæmalausa bankahrun, dagana 7. til 9. október 2008, þegar Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing hrundu eins og spilaborg.
Þessi tímamót eru staðfesting á því að efnahagsáætlun Íslands og AGS hefur heppnast í stórum dráttum vel, og sú aðstoð sem fólst í því að fá aðgang að mikilvægum gjaldeyrissjóði, þegar næstum öll sund voru lokuð á mörkuðum, reyndist ómetanleg.
Nú er í undirbúningi mikilvæg aðgerð, það er losun hafta og uppgjör vegna slitabúa hinna föllnu banka. Fjármagnshöft hafa verið lagaleg skylda frá því í nóvember 2008, til þess að vernda almannahagsmuni. Tjónið af falli bankanna, fyrir almenning, hefur verið gífurlegt og verður ekki að öllu leyti metið til fjár.
Skrefin sem tekin eru í rétta átt á langri leið til efnahagsbata eru mikilvæg, og þrátt fyrir oft harðar deilur stjórnmálamanna um hvert skuli haldið, þá er ekki hægt að segja annað en að uppgjörið við AGS sé einn af stóru minnisvörðum þess, að vel hafi tekist til við endurreisnina í stórum dráttum.