Mikil uppstokkun átti sér stað innan 365 miðla í dag. Mikael Torfason aðalritstjóri hefur verið rekinn, Ólafur Stephensen ritstjóri hefur reynt að segja upp störfum og tveir fréttastjórar hafa verið settir af. Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi 365 miðla, hefur tekið að sér starf aðalritstjóra og Sigurjón M. Egilsson, útvarpsmaður og ritstjóri www.midjan.is, hefur verið ráðinn sem fréttaritstjóri.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa breytingar legið í loftinu síðan að tilkynnt var um ráðningu Kristínar Þorsteinsdóttur sem útgefanda 365 í lok júlí síðastliðins. Kristín starfaði fyrir nokkuð löngu á ýmsum fjölmiðlum, lengst af hjá fréttastofu RÚV, en gerðist síðar yfirmaður samskiptasviðs Baugs, fjárfestingafélags sem var stýrt um árabil af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, og upplýsingafulltrúi flugfélagsins Iceland Express, sem var stýrt af Pálma Haraldssyni. Jón Ásgeir var lengi aðaleigandi 365 og Pálmi var einnig á meðal eigenda fyrirtækisins um tíma. Í dag er aðaleigandi fyrirtækisins Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs.
Ólafur reyndi að segja upp
Í morgun var Mikael Torfasyni sagt upp störfum sem aðalritstjóra 365 miðla. Hann var ráðinn í mars 2013 og starfaði því hjá fjölmiðlarisanum í um eitt og hálft ár. Skömmu síðar var starfsfólki tilkynnt að Sigurjón M. Egilsson, sem var fréttaritstjóri Fréttablaðsins á árum áður en hefur undanfarin misseri sinnt fréttaflutningi á síðunni www.midjan.is og haldið úti útvarpsþættinum Sprengisandi, hefði verið ráðinn sem fréttaritstjóri. Kristín Þorsteinsdóttir mun setjast, að minnsta kosti tímabundið, í stól aðalritstjóra.
Ólafi Stephensen, sem hefur verið ritstjóri Fréttablaðsins í um fjögur og hálft ár, var, samkvæmt heimildum Kjarnans, boðið að taka við breyttu hlutverki á fréttastofu 365 miðla. Hann hefði þá heyrt undir Sigurjón M. Egilsson, nýráðinn fréttaritstjóra. Ólafur mun hafa reynt að segja upp störfum í kjölfarið en uppsögn hans var ekki móttekin, samkvæmt heimildum Kjarnans. Starfsfólk 365 miðla sem Kjarninn ræddi við telur skýrt að Ólafur muni ekki mæta aftur til starfa, þótt það sé ekki útilokað. Vilji sé til þess á meðal stjórnar 365 að láta Ólaf vinna uppsagnarfrest. Ólafur svaraði ekki skilaboðum Kjarnans við vinnslu fréttarinnar.
Þá herma heimildir Kjarnans að Breki Logason hafi verið settur af sem fréttastjóri Stöðvar 2 og Andri Ólafsson settur af sem fréttastjóri Fréttablaðsins. Þeim hefur báðum verið boðið ný störf á fréttastofunni.
Viðbót klukkan 18:28:
Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og sitjandi aðalritstjóri 365 miðla, vill koma því að framfæri að Ólafur Stephensen sé enn starfandi hjá fyrirtækinu og sé raunar við störf á þessari stundu. Hún segir einnig að Breki Logason og Andri Ólafsson séu enn fréttastjórar. Þegar ofangreind frétt var skrifuð var stuðst við fjölmargar samhljóma heimildir um stöðuna innan 365 miðla á þeim tíma. Kjarninn stendur því að öllu leyti við fréttina.