Annar einstaklingur hefur stefnt Vodafone vegna innbrotsþjófnaðar erlends tölvuhakkara á heimasíðu Vodafone í nóvember 2013, og dreifingu á stolnu gögnunum. Einstaklingurinn krefst 90 milljóna króna í skaða- og miskabætur auk vaxta og málskostnaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu Vodafone til Kauphallar Íslands.
Þetta er önnur stefnan sem berst Vodafone vegna málsins, en eins og greint var frá í byrjun febrúar stefndi annar einstaklingur Vodafone vegna málsins. Sá einstaklingur krefst 8,4 milljóna króna frá Vodafone.
„Sem fyrr telur félagið verulegan vafa leika á bótaskyldu og að dæmdar fjárhæðir, telji dómstólar bótaskyldu yfir höfuð til staðar, hafi í öllu falli óveruleg áhrif á rekstur og efnahag félagsins. Fyrir liggur að stefnufjárhæð er í engu samræmi við dómafordæmi í skaða- og miskabótamálum hér á landi. Gerð verður grein fyrir þessari og mögulegum frekari málshöfðunum í skýringum ársfjórðungsuppgjöra eða eftir því sem við getur átt,“ segir í tilkynningu Vodafone.
Stórtækasta árás í einkalíf Íslendinga frá upphafi
Innbrotið inn á heimasíðu Vodafone, sem er eina fjarskiptafyrirtækið sem er skráð á markað á Íslandi, átti sér stað að morgni 30. nóvember 2013.
Þjófnum tókst að komast yfir um 79 þúsund smáskilaboð sem send höfðu verið af heimasíðu Vodafone á síðustu þremur árum, mikinn fjölda lykilorða viðskiptavina Vodafone að notendasíðum þeirra hjá fyrirtækinu, fjögur kreditkortanúmer og gríðarlegt magn upplýsinga um möfn og kennitölur viðskiptavina. Gögnin birti hann síðan opinberlega. Stuldurinn, og birting gagnanna, er stórtækasta innrás í einkalíf Íslendinga sem nokkru sinni hefur átt sér stað.