Á árunum 2009 til 2013 voru lagðar fram 720 beiðnir verið lagðar fram af lögreglu um að fá að hlera símtöl í málum sem hún hefur verið að rannsaka. Vegna þeirra voru gefnir út 715 úrskurðir þar sem heimild var veitt til hlerunar í alls 145 málum. Það þýðir að 99,3 prósent beiðna voru samþykktar af dómstólum. Þetta kemur fram í skriflegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem var birt í dag.
Flestar beiðnir vegna rannsókna á fíkniefnabrotum
Langflestar heimildir til hlerunar á síma voru veittar vegna rannsókna á fíkniefnamálum, eða 463 talsins. 116 voru veittar vegna rannsóknar á auðgunarbrotum, 49 vegna rannsóknar á efnahagsbrotamálum og 36 vegna rannsóknar á kynferðisbrotamálum. Símhleranir í öðrum brotaflokkum voru færri.
Lengst stóð hlerun yfir í 36 daga, og var hún vegna rannsóknar á fíkniefnamáli. Hleranir vegna rannsóknar á efnahagsbrotamálum hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri vegna aðfinnsla lögmanna sakborninga í svokölluðum hrunmálum. Lengsta heimild til hlerunar í slíkum málum var í 28 daga.