Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis leggur til tvær fremur stórar breytingartillögur við svokallað brugghúsafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, sem átti í upphaflegri mynd að opna á það að brugghús gætu selt bjór í neyslupakkningum „beint frá býli“.
Með breytingunum sem meirihlutinn leggur til og gerir grein fyrir í nefndaráliti sem birtist á vef þingsins í dag er opnað á það að aðrir áfengir drykkir en einungis bjór verði seldir beint frá framleiðslustað. Einnig er lagt til að ráðherra hámarki það magn sem selja megi hverjum einstakling með því að setja sérstaka reglugerð um það. Nefndin telur rétt að það verði sama magn áfengis og kaupa má í fríhafnarverslun við komuna til landsins.
Ekki rétt að mismuna þeim sem brugga sterkt vín
Fram kemur í nefndarálitinu að meirihlutinn telji „ekki málefnalegt að gera greinarmun á milli framleiðenda áfengis“ og því verði hægt að selja aðra áfenga drykki, líka þá sem innihalda yfir 12 prósent alkóhól.
Í tilviki áfengis sem er sterkara en 12 prósent verður þó sá aðili sem framleiðir drykkinn að framleiða undir 100 þúsund lítra á ári, á meðan að framleiðendur áfengra drykkja sem með áfengisprósentu undir 12 prósentum mega að hámarki framleiða 500 þúsund lítra á ári til þess að fá leyfi til að selja áfengi beint frá framleiðslustað.
Hámarksmagn til hvers og eins
Meirihluti nefndarinnar vill svo að hömlur verði settar á það magn sem hver og einn einstaklingur má kaupa af bjór. Þetta telur meirihlutinn rétt að gera, þar sem markmið frumvarpsins sé að veita „þrönga undanþágu frá einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis“ og einnig með hliðsjón af lýðheilsusjónarmiðum.
„Telur meiri hlutinn eðlilegt að vísa til þess fyrirkomulags sem viðhaft er í fríhöfnum á Íslandi, sem takmarkar magn með reiknireglu sem byggist á áfengiseiningum. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt í ljósi þeirra lýðheilsusjónarmiða sem komu fram við umfjöllun nefndarinnar, m.a. frá embætti landlæknis, að magntakmarkanir séu þær sömu og finna má í 4. gr. reglugerðar nr. 630/2008,“ segir í áliti meirihlutans, en umrædd reglugerð fjallar um ýmis tollfríðindi.
Þar segir, um áfengi, að ferðamenn megi flytja inn tollfrjálst áfengi, 1 lítra af sterku áfengi og 1 lítra af léttvíni, eða 3 lítra af léttvíni eða 1 lítra af sterku áfengi, eða 1,5 lítra af léttvíni og 6 lítra af öli.
Einhverjar svipaðar takmarkanir myndu gilda um sölu beint frá brugghúsum landsins, ef frumvarpið fæst samþykkt á Alþingi með þessum breytingum meirihluta nefndarinnar. Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar sagði við mbl.is fyrr í dag að hún reiknaði með því að frumvarpið yrði að lögum fyrir þinglok, sem fyrirhuguð eru síðar í vikunni.
Sjö nefndarmenn skrifa undir álit meirihlutans, þau Bryndís Haraldsdóttir og Birgir Þórarinsson Sjálfstæðisflokki, Jóhann Friðrik Friðriksson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttur Framsókn, Kári Gautason Vinstri grænum, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir Pírötum og Hilda Jana Gísladóttir frá Samfylkingu.
Hilda Jana ritar undir álitið með fyrirvara varðandi það að heimilt verði að selja vín sem er sterkara en 12 prósent. Í fyrirvara hennar segir að um sé að ræða veigamikla breytingu, sem ekki hafi fengið viðeigandi umfjöllun í nefndinni og umsagnaraðilar hafi ekki fengið að bregðast við.