Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2023 er ráðgert að íslenska ríkið kaupi losunarheimildir fyrir 800 milljónir króna á næsta ári, vegna uppgjörs á skuldbindingum Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni.
Íslensk stjórnvöld eru þó ekki búin að ákveða hvernig uppgjörinu verður háttað og því er óljóst hvort meira eða minna fé þurfi til kaupa á losunarheimildum, samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytinu.
Ísland náði ekki að standa við þær skuldbindingar um minnkun losunar á árunum 2013-2020, sem komist var að samkomulagi um við framlengingu Kýótó-bókunarinnar, á fundi í höfuðborg Katar undir lok árs 2012.
Samkvæmt Doha-breytingunni svokölluðu, sem Ísland fullgilti 7. október 2015, hefði Ísland þurft að losa 20 prósentum minna af gróðurhúsalofttegundum árið 2020 en árið 1990 til þess að standast skuldbindingar sínar.
Talað um allt frá nokkur hundruð milljónum upp í marga milljarða
Það tókst ekki – og því þarf íslenska ríkið að verja fé til kaupa á losunarheimildum sem nema 3,9 milljónum CO2-ígilda, eða sem nemur allri umframlosun Íslands á öðru skuldbindingatímabili Kýótó-bókunarinnar.
Legið hefur ljóst fyrir í allnokkur ár að Ísland myndi ekki ná að standa við Kýótó-skuldbindingarnar og þyrfti því að kaupa losunarheimildir, en hve mikið það gæti kostað hefur verið nokkuð óljóst.
Tölurnar sem settar hafa verið fram í umfjöllunum fjölmiðla á undanförnum árum hafa verið allt frá um 200 milljónum, sem þá væru einna ódýrustu losunareiningarnar sem völ er á, og allt upp í marga milljarða króna ef dýrari einingar í viðskiptakerfi Evrópusambandsins yrðu keyptar.
Samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála er enn óljóst hve miklu fé verður varið, þrátt fyrir að tilgreint sé í fjárlagafrumvarpinu að til standi að 800 milljónum verði varið í kaup á losunarheimildum á næsta ári.
Sama upphæð hafði áður verið eyrnamerkt Kýótó-uppgjörinu í fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem lögð var fram í vor.
Ekki búið að ákveða hvaða einingar á að kaupa
Kjarninn beindi þremur spurningum til ráðuneytisins eftir að fjárlagafrumvarpið var kynnt fyrr í þessum mánuði.
Spurt var hvaða losunarheimildir til stæði að kaupa, hve mikið af magn losunarheimilda fengist fyrir 800 milljónirnar og hvort þessu fé væri ætlað að duga til að gera upp hlut Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni.
Í svari ráðuneytisins segir að nokkrir kostir liggi fyrir varðandi kaup á losunarheimildum. „[Þ]eir helstu eru kaup á einingum (CER) úr sk. loftslagsvænni þróunaraðstoð, sem hægt er að kaupa á markaði og kaup á landseiningum (AAU) frá ríkjum sem hafa losað minna en sem heimildum þeirra nemur. Þessir kostir hafa verið kortlagðir, en endanleg ákvörðun um kaup á einingum liggur ekki fyrir,“ segir í svari ráðuneytisins.
Sumar CER-einingar orki tvímælis
Eðli málsins samkvæmt, segir ráðuneytið, fer það svo eftir verðinu á einingunum hversu mikið fengist af losunareiningum fyrir þær 800 milljónir sem reiknað er með í fjárlagafrumvarpinu. Ráðuneytið segir líka að skoða verði hvort verkefnin að baki einingunum hafi skilað raunverulegum ávinningi fyrir loftslagið.
„Nokkuð góð vitneskja er um verð á CER-einingum á markaði, en það fer þó eftir verkefnum sem liggja að baki þeim. Nauðsynlegt er að ganga úr skugga um að verkefnin hafi skilað sannanlegum loftslagsávinningi, en einstaka verkefni þykja orka tvímælis hvað slíkt varðar, eins þótt þau hafi verið vottuð með útgáfu CER-eininga. Verð á kaupum á AAU-einingum eru samningsatriði milli ríkja, en þar er einnig tækifæri til að tengja kaup á einingum við fjármögnun nýrra loftslagsvænna verkefna; ekki er eðli málsins samkvæmt hægt að greina frá upphæð og magni fyrr en að viðskiptum loknum,“ segir í svari ráðuneytisins.
Vegna óvissu um verð og gæði þeirra losunarheimilda sem verða keyptar, og hér hefur verið sagt frá, getur ráðuneytið svo ekki gefið ákveðið svar við því hve stór hluti skuldbindinga Íslands verður gerður upp með milljónunum átta hundruð sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að því