Vandi leigjenda og ungra kaupenda getur ekki beðið, að mati Helgu Þórðardóttur varaþingmanns Flokks fólksins. Alþingi verði að grípa inn í þessa þróun strax með sértækum úrræðum.
Þetta kom fram í máli Helgu undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Hún sagði að húsnæðismál á Íslandi væru stór mál og að bráðavandi væri fyrir höndum vegna framboðsskorts og verðhækkana. „Öll þurfum við þak yfir höfuðið og það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa heimili.“
Helga benti á að sveitarfélög og stjórnvöld hefðu undanfarin ár vanmetið íbúðaþörf svo um munar. „Það hefur valdið gífurlegri hækkun á íbúðaverði og húsaleigu. Talið er að húsnæðisverð hafi hækkað um 22 prósent á síðastliðnum 12 mánuðum. Afleiðingin er sú að ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er skuldsett upp í rjáfur og hafa mörg fengið aðstoð foreldra til að fjármagna kaupin. Skuldsett fólk hefur ekki kaupmátt til að efla hagvöxt. Það sama gildir um leigjendur.
Meira en fjórðungur leigjenda er að greiða meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Það má vel vera að samkvæmt einhverjum skýrslum sé ástandið gott hjá meðaltalinu en meðaltöl verða ekki í askana látin,“ sagði hún.
Vandinn ekki leystur á einum degi
Helga telur að „við verðum að hætta að samþykkja fátækt með því að nota meðaltöl. Við verðum að viðurkenna í sameiningu að á meðan fátækt er til staðar hefur okkur mistekist og við verðum að gera betur.“
Þá sagði hún jafnframt að húsnæðisvandinn yrði ekki leystur á einum degi því að það tæki nokkur ár að byggja nýjar íbúðir. „Vandi leigjenda og ungra kaupenda getur ekki beðið. Alþingi verður að grípa inn í þessa þróun strax með sértækum úrræðum. Við í Flokki fólksins viljum skoða leiguþak og þá sem tímabundna ráðstöfun. Við þurfum líka að aðstoða sérstaklega þá sem eru nýkomnir inn á íbúðamarkaðinn. Eitthvað verðum við að gera. Við getum ekki horft upp á stjórnlausan markaðinn ráðskast með lífsviðurværi fjölskyldnanna í landinu.“