Ekki hefur komið til greina af hálfu íslenskra stjórnvalda að vísa sendiherra Rússlands á Íslandi eða öðrum sendirráðsstarfsmönnum úr landi vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Mikhail V. Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, var boðaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í tvígang í vikunni, fyrst á miðvikudag og aftur á fimmtudag eftir að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Í svari ráðuneytisins segir að á óvissutímum sem þessum sé mikilvægt að samskiptaleiðir séu fyrir hendi á milli stjórnvalda í ríkjum heims.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, flutti skýrslu fyrir Alþingi á fimmtudag þar sem hún fordæmdi harðlega innrás Rússa í Úkraínu. Á fundi utanríkisráðuneytisins með sendiherranum á fimmtudag var honum gerð grein fyrir afstöðu Íslands og hörðum mótmælum við innrásinni var komið á framfæri.
Ekki innrás heldur „hernaðaraðgerð“
Noskov sagði í kvöldfréttum RÚV á fimmtudag að ekki væri um innrás að ræða heldur hernaðaraðgerð til að tryggja öryggi rússneskra borgara, bæði í Úkraínu og í Rússlandi. Þá sé markmið hernaðaraðgerðarinnar að draga úr styrk hersins í Úkraínu.
Ákvörðun Íslands um að vísa sendiherra ekki úr landi, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, byggir meðal annars á Vínarsamningnum svokallaða, alþjóðasamningi um stjórnmálasamband. Þar er meðal annars kveðið á um að hlutverk sendiráða sé að vernda hagsmuni sendiríkisins og ríkisborgara þess í móttökuríkinu, innan þeirra takmarka sem þjóðaréttur setur.
Brottvísun sendiráðsstarfsmanna hefur því ekki komið til skoðunar en utanríkisráðuneytið mun fylgjast grannt með þróun og viðbrögðum helstu vina- og bandalagsþjóða, að því er segir í skriflegu svari til Kjarnans.
Engin fordæmi fyrir því að vísa erlendum stjórnarerindrekum úr landi
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu eru engin fordæmi fyrir því að íslensk stjórnvöld vísi erlendum stjórnarerindrekum úr landi.
Það mátti hins vegar ekki tæpara standa í þorskastríðinu 1976 þegar Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta vegna landhelgisdeilunnar. Sendiherrar ríkjanna fóru til síns heima en ræðissambandi var ekki slitið. Síðar sama ár var stjórnmálasamband ríkjanna svo endurnýjað.