Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar spurði Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að því á Alþingi í dag hvernig stæði á því að meirihluti nefndarinnar hefði ekki brugðist með neinum hætti við þeim „þungu og afgerandi viðvörunarorðum“ sem skrifstofa skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefði beint til þingsins hvað varðar framlengingu úrræðis sem nefnist Allir vinna.
Í breytingartillögu meirihluta nefndarinnar við svokallað bandormsfrumvarp sem lagt var fram samhliða fjárlögunum er lagt til að úrræðið verði framlengt út ágústmánuð, en þó með ákveðnum breytingum sem draga aðeins úr umfanginu, eins og Kjarninn fjallaði um skömmu fyrir jól.
Skrifstofa skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu mælti hins vegar fremur afgerandi gegn því að úrræðið, sem felur í sér fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts af ákveðnum tegundum útseldrar vinnu, yrði framlengt í þeirri mynd sem tekin var upp eftir að kórónuveiran fór að láta á sér kræla.
Jóhann Páll spurði að því á Alþingi í morgun hvernig stæði á því að ekki hefði verið tekið tillit til þeirra viðvörunarorða sem sett voru fram af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í nefndaráliti meirihlutans og rifjaði upp að það væri mat ráðuneytisins að framlenging Allir vinna væri hreinlega óráðleg.
„Að mati ráðuneytisins er framlengingin til þess fallin að ýta undir þenslu, hún raskar jafnræði á milli atvinnugreina, grefur undir skilvirkni virðisaukaskattkerfisins, kostar á áttunda milljarð króna á næsta ári og torveldar það verkefni að draga úr hallarekstri ríkissjóðs og halda aftur af verðbólgu. Svo benti ráðuneytið líka á það hefur ekki verið sýnt fram á að úrræðið sporni gegn svartri atvinnustarfsemi eða stuðli að betri skattskilum, það liggja ekki fyrir neinar greiningar á þessu,“ sagði Jóhann Páll.
Til viðbótar því sem þingmaðurinn nefndi má nefna að í minnisblaðinu frá ráðuneytinu er þess getið að Skatturinn hefði sett mikla vinnu í að afgreiða þær yfir hundrað þúsund endurgreiðslubeiðnir sem borist hafa vegna úrræðisins frá því í mars 2020 – og að ráðuneytið velti því upp hvort tíma starfsmanna Skattsins væri ef til vill betur varið í skatteftirlit.
Jóhann Páll bað um útskýringar frá Guðrúnu á því að hvaða leyti meirihluti nefndarinnar væri ósammála því sem fram kom í minnisblaðinu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem og á því hvers vegna ekki væri brugðist við innihaldi minnisblaðsins með neinum hætti í nefndarálitinu. Þingmaðurinn nefndi að það væri ekki oft sem ráðuneyti teldi sig knúið til þess að beinlínis vara Alþingi við hagstjórnarmistökum með þeim hætti sem fjármála- og efnahagsráðneytið hefði gert í þessu máli.
Byggingariðnaðurinn hafi tekið á sig fyrri högg
Guðrún svaraði því til að Allir vinna hefði verið við lýði í mjög langan tíma í íslensku samfélagi og fullyrti að úrræði hefði skilað ávinningi í baráttunni gegn svartri atvinnustarfsemi í landinu. Hún sagði að það væri enn slaki í byggingariðnaði á Íslandi og að þegar hefði gefið á bátinn í íslensku efnahagslífi hefði mannvirkjageirinn verið sá geiri sem hefði þurft að bera mjög þungar byrðar.
„Við þekkjum það öll frá efnahagsáfallinu sem varð hér í kjölfar bankahrunsins þá varð það högg sem byggingargeirinn fékk á sig gríðarlegt og hefur hann varla borið sitt barr síðan,“ sagði Guðrún. Hún nefndi svo aftur að úrræðið hefði spornað gegn svartri atvinnustarfsemi – það væri „óyggjandi“ að ávinningur væri af því að þessi vinna væri gefin upp, í stað þess að viðskiptin færu fram utan skattkerfisins.
Jóhann Páll steig aftur í pontu og sagði að Guðrún virtist frekar vera að tala „út frá tilfinningu um hvernig hlutirnir séu“ fremur en gögnum, en ráðuneytið hefði byggt álit sitt á. Hann benti síðan á að áður en endurgreiðsluhlutfallið var fært upp í 100 prósent hefðu endurgreiðslur numið 60 prósentum og að ekki hefði verið með neinum hætti sýnt fram á það að það hefði aukið skattskil að færa hlutfallið upp í 100 prósent.
Guðrún sagði að nefndin hefði saknað þess að fá að sjá frá ráðuneytinu útreikninga á tekjuhliðinni, en ráðuneytið hefði eingöngu fært fram útreikninga á útgjaldahliðinni, eins og það komi ekkert inn til ríkisins vegna þessa úrræðis.
„Okkur hættir til að gleyma því að það að öll vinna sé gefin upp til skatts, þá skilar hann sér til ríkisins, það er greitt útsvar, það kemur tekjuskattur, það eru tekjur á móti. Það er ósanngjarnt að horfa bara á annan öxulinn hér og sjá bara útgjaldahliðina, það koma vitaskuld tekjur inn á móti,“ sagði Guðrún.