„Það er mikill þrýstingur núna á að virkja meira. Það finnst mér ekki réttlætanlegt á þessu stigi. Við verðum að horfa til þess að vatnsárið í ár var óvenju slæmt. Í venjulegu vatnsári væri enginn rafmagnsskortur.“
Þetta sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, á ársfundi fyrirtækisins í lok síðustu viku. Bjarni sker sig nokkuð úr hvað þetta varðar miðað við forstjóra annarra íslenskra orkufyrirtækja. Hann hefur til að mynda sagt að ekki þurfi að virkja sérstaklega til rafbílavæðingar.
Á fundinum, sem var haldinn í gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal, sagðist hann vilja horfa til allra átta. „Ísland býr við hlunnindi af þrennum toga, ef við getum sagt sem svo, frá náttúrunnar hendi,“ útskýrði hann. „Það er fiskurinn í sjónum, og hann er eign þjóðarinnar þó að arðurinn renni kannski í örfáa vasa, en það er annað mál. Síðan er það orka landsins, það eru fallvötnin, það er jarðhitinn. Og núna vindurinn. Síðan er það landið sjálft, náttúran og ásýnd.“
Benti hann svo á að fyrir heimsfaraldurinn hafi komið meiri erlendar tekjur af því að sýna útlendingum landið heldur en af nokkrum öðrum atvinnuvegi. „Og ætlum við að ráðast inn á óvirkjuð svæði, bæði háhitasvæði og önnur, svo ég tali nú ekki um vindinn, þar sem aðallega Norðmenn vilja reisa vindorkuver á hverjum hóli? Ætlum við að gera það og höggva þá fótinn undan okkur hvað varðar náttúruna og ásýndina sem við erum að selja?“
Mikilvægt væri að finna jafnvægi milli þessara þátta.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri sagði að í auðlindanýtingu þyrfti alltaf að horfa á hófsemi og framsýni. Að reyna að horfa á að fá sem mest fyrir sem minnst. „Og í orkugeiranum erum við auðvitað að vinna innan auðlindaumhverfis,“ sagði hún. „Við erum með náttúruna sem skiptir miklu máli varðandi loftslagsmálin. Hún vex í virði á tímum loftslagsmála. Síðan erum við með orkumálin og þar er heldur betur líka vöxtur í virði.“ Ná þurfi sem mestum árangri hvað báðar þessar auðlindir varðar.
Orkuskipti, sem stjórnvöld hafa sett á oddinn sem lausn til að draga úr losun og vinna gegn hinum manngerða loftslagsvanda, eru talin þurfa á bilinu 4-24 TWst af orku á ári, allt að 124 prósent meiri en nú er hér framleidd, allt eftir því hversu mikið innlent rafeldsneyti verður framleitt hér á landi, hversu langt verður gengið í orkuskiptum í öllum samgöngum og hversu miklum hagvexti er reiknað með. Þetta er niðurstaða skýrslunnar Staða og áskoranir í orkumálum sem unnin var af starfshópi er Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í byrjun árs.
Langt frá markmiðum
Framreikningar Umhverfisstofnunar á þróun í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2040 gefa til kynna að losun á beinni ábyrgð Íslands muni dragast saman um 28 prósent fram til ársins 2030 miðað við 2005. Það væri ansi fjarri markmiði ríkisstjórnarinnar, sem setti sér í stjórnarsáttmála sjálfstætt markmið um að losun á ábyrgð Íslands dragist saman um 55 prósent fram til ársins 2030 miðað við 2005.
Næsti áfangi
„Niðurstöðurnar segja okkur að við þurfum að herða okkur í loftslagmálum ef við ætlum að standa við loftslagsmarkmiðin,“ sagði Guðlaugur Þór í gær, er þessir útreikningar voru kynntir. Hann sagði Ísland á eftir mörgum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. „Við þurfum að vinna hratt og við þurfum að vinna saman til að ná betri árangri. Það er alveg ljóst að nú er komið að næsta áfanga í vegferðinni og þar þarf íslenskt atvinnulíf og sveitarfélög að stíga inn í aðgerðaráætlunina af fullum þunga, setja sér markmið og útbúa áætlanir til að markmið okkar náist.“