Thomas de Maiziére innanríkisráðherra Þýskalands segir að flóttafólk sem fær skjól í Evrópu eigi ekki sjálfkrafa rétt á að velja sér búsetuland. Ráðherrann lét þessi orð falla í viðtali við Der Tagesspiegel.
Ráðherrann situr í dag fund dóms- og innanríkisráðherra ESB landanna í Brussel þar sem ræða á málefni flóttafólks. Samtals er talið að 160 þúsund flóttamenn hafi komið til Evrópu að undanförnu. Í þessu mánuði einum hafa um 63 þúsund manns komið til München og borgarstjórinn þar segir að borgin geti ekki, í bili að minnsta kosti, tekið við fleiri flóttamönnum. Þýsku ríkisjárnbrautirnar, Deutche Bahn, hafa bætt við lestaferðum til Nordrhein-Westphalen og til Norður-Þýskalands vegna flóttamannanna.
Í áðurnefndu viðtali sagði þýski innanríkisráðherrann að Þjóðverjar væru sannarlega tilbúnir að leggja sitt af mörkum og taka á móti stórum hópi flóttafólks og það hefðu þeir vissulega gert. Fjöldinn væri hins vegar svo mikill að það væri ekki á færi neins lands að taka við svo mörgu fólki. „Þótt við Þjóðverjar séum margir og landið stórt eru takmörk fyrir öllu,“ sagði ráðherrann. Hann sagði jafnframt að Evrópusambandsríkjunum bæri skylda til að finna lausnir til að mæta vanda þess mikla fjölda sem hefði orðið að flýja heimaland sitt vegna átaka og ofsókna. „Þar má enginn láta sitt eftir liggja“ sagði ráðherrann. Ráðherrann sagði að þegar ákveðið var að hleypa flóttafólki inn í Þýskaland, án þess að formleg skráning færi fram (sem lög gera ráð fyrir) hefði það verið gert til að afstýra algjöru neyðarástandi. Þótt ýmsir hafi orðið til að gagnrýna þá ákvörðun væri hann sannfærður um hún hafi verið rétt.