Ekki er enn víst hvort Sigurður Einarson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka, verði sviptur riddarakrossinum sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, sæmdi hann á nýársdag 2007. Í febrúar sagði formaður orðunefndar nefndinni skylt að fara yfir málið og hefur nefndin fundað nokkrum sinnum síðan.
Sigurður var sæmdur heiðursmerki fálkaorðunnar „fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi“ eins og segir í umsögn á vef Stjórnartíðinda. Í febrúar var Sigurður svo dæmdur í Hæstarétti til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir markaðsmisnotkun í hinu svokallaða Al-Thani-máli ásamt þremur öðrum.
„Það er ekkert af þessu máli að frétta á þessu stigi,“ sagði Guðni Ágústsson, formaður orðunefndar, þegar hann var inntur eftir svörum um hvort nefndin hefði fjallað um mál Sigurðar Einarssonar. Þjóðin fengi að vita niðurstöðuna þegar hún hefði verið tekin, eins og vaninn er með ákvarðanir orðunefndar.
Sigurður Einarsson (fjórði frá hægri) hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2007.
Á vef RÚV var haft eftir Guðna eftir að dómurinn í Hæstarétti féll að orðunefnd væri skylt að fara yfir málið. Fundur verði haldinn eftir mánaðarmótin febrúar og mars og þá kannað hvort mál af þessum toga hafi komið upp áður og hvernig hafi verið brugðist við.
Orðunefnd hefur fundað síðan þá en ekki liggur fyrir niðurstaða í málinu. Í lögum um heiðursmerki fálkaorðunnar segir að stórmeistari, það er forsetinn, geti svipt mann orðunni ef sá hefur „gerst sekur um misferli“. Orðunefnd ræður málefnum fálkaorðunnar og leggur forsetanum til nöfn og umsókn um hver skuli fá að bera orðuna. Allir geta fengið að bera orðuna hafi þeir unnið „vel unnin störf í þágu íslensku þjóðarinnar eða á alþjóðavettvangi“.