Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segir það koma til greina að mynda stjórnmálaafl með Pírötum. Margar áskoranir hafi komið fram á eldri borgara um að láta að sér kveða í næstu alþingiskosningum, sem fara fram vorið 2017. Þetta kom fram í samtali við Þórunni á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Þar sagði hún m.a.: „Ein besta uppástungan sem ég hef heyrt í þessum málaflokki er sú að við höllum okkur að, að fara í framboð með Pírötum. Og það er margt vitlausara. Þetta er náttúrulega flokkur með dálítið ómótaða stefnu og kannski þyrfti bara á okkur að halda, vegna þess að reynslumikið fólk í þessum hópi getur einmitt bætt breiddina hjá unga fólkinu".
Ótrúlegur vöxtur Pírata
Píratar eru sem stendur með þrjá þingmenn eftir að flokkurinn 5,1 prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum og rétt skriðu yfir fimm prósent þröskuldinn sem þarf til að fá menn inn á þing. Framan af kjörtímabilinu óx fylgi við flokkinn nokkuð jafnt og þétt og í janúar 2015 mældist það 12,8 prósent og hafði aldrei mælst hærra. Það átti þó eftir að breytast.
Píratar hafa mælst með gríðarlega mikið fylgi í skoðanakönnunum undanfarinna mánaða. Í síðustu birtu könnun Gallup, sem var gerð opinber í byrjun október, kom fram að flokkurinn mælist nú með 34,6 prósent fylgi. Fylgi Pírata hefur nú mælst yfir 30 prósent í sex mánuði í röð. Flokkurinn yrði langstærsti stjórnmálaflokkur landsins ef kosið yrði í dag.
Eldri borgurum mun fjölga hratt á næstu áratugum
Þórunn sagði við Morgunvaktina að ólgan á meðal eldri borgara væri óvenjulega mikil um þessar mundir. Ástandið á leigumarkaði væri eitt stærsta vandamálið sem þeir stæðu frammi fyrir. Margir eldri borgarar standi illa fjárhagslega, meðal annars vegna þess að fæðingarlorlof var ólaunað þegar það átti sín börn og ekki var greitt í lífeyrissjóð af fæðingarorlofsgreiðslum fyrr en árið 2000. Þá sé nýbúar í hópi eldri borgara í hættu á að verða fátækir. Þeirra kjör séu mjög rýr.
Eldri borgurum fjölgar mjög hratt á Íslandi og mun fjölga enn hraðar ánæstu áratugum. Spár gera ráð fyrir því að fjöldi Íslendinga sem eru yfir 67 ára aldri, sem í dag er lögbundinn eftirlaunaaldur, muni þrefaldast á næstu 45 árum. Hagstofa Íslands spáir því að árið 2060 verði þeir 97 þúsund.