Heildargjöld ríkissjóðs vegna eldsumbrota norðan Vatnajökuls eru komin í 686,8 milljónir króna á yfirstandandi ári. Þetta kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga sem lagt var fram í gær.
Í álitinu segir að nauðsynlegt sé að millifæra 357,8 milljónir króna af liðnum „ófyrirséð útgjöld“ hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu „yfir til sjö ríkisstofnana sem allar skýrast af sama tilefni, þ.e. eldsumbrotum norðan Vatnajökuls. Millifærslurnar koma til viðbótar 329 millj. kr. sem samþykktar voru við 2. umræðu. Þá eru heildargjöld vegna eldsumbrotanna komin í 686,8 millj. kr. á yfirstandandi ári“.
Gosið í Holuhrauni hófst að morgni 31. ágúst síðastliðins og stendur enn.
Reikningurinn mun hækka
Þær millifærslur sem nú var gert ráð fyrir byggja á mati á umframkostnaði stofnanna til loka septembermánaðar. Kostnaður vegna eldsumbrotanna á þessu ári á því enn eftir að aukast, enda á eftir að gera ráð fyrir kostnaði vegna þriggja síðustu mánaða ársins.
Í álitinu segir að tillagan sé sett fram með þeim fyrirvara að fjárþörfin verði endurmetin í árslok þegar raunkostnaður liggi fyrir.
Skipting þeirra 357,8 milljóna króna sem færðir eru til stofnananna sjö nú er eftirfarandi: