Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki telja ráðlegt að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, setjist á þing að nýju. Hún segist ennfremur telja það mikilvægt að Hanna Birna láti af embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem Elín setti inn nú í morgun í tengslum við álit umboðsmanns Alþingis um lekamálið.
„Ég tel að Hanna Birna hafi gert afdrifarík mistök,“ segir Elín í færslunni, en veigamestu mistökin hafi verið afskipti Hönnu Birnu af rannsókn málsins. Vegna þessa sé ekki ráðlegt að Hanna Birna snúi aftur. „En mikilvægast er að stjórnmála- og ráðamenn landsins dragi lærdóm af málinu og axli ábyrgð á mistökum sem þessum gagnvart umbjóðendum sínum, almenningi í landinu.“
Elín er fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tjáir sig í þessa veru. Í gær tjáði formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, sig í fyrsta skipti eftir álit umboðsmanns Alþingis. Hann sagðist „algjörlega“ telja að Hanna Birna ætti afturkvæmt á þing, það væri í hennar höndum og traust þingflokksins væri „alveg óskorað“. Hann sagði jafnframt að engum blöðum væri um það að flétta að Hanna Birna hefði borið skaða af lekamálinu.