Elísabet Grétarsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri eins stærsta og umfangsmesta tölvuleiks í heimi, Battlefield, sem Electronic Arts, EA Games, gefur út. Elísabet, sem hefur verið forstöðumaður markaðssviðs Arion banka undanfarin misseri, hefur víðtæka reynslu og þekkingu á tölvuleikjaiðnaðinum en hún var þar á undan markaðsstjóri EVE Online tölvuleiksins. „Þetta kom bara upp í fangið á mér, og ég ákvað að stökkva til. Þetta er verulega stórt verkefni og áskorunin er mjög spennandi,“ segir Elísabet. Hún verður með skrifstofu í Stokkhólmi, þar sem stúdíó Battlefield er starfrækt en höfuðstöðvar EA eru í Redwood City í Kaliforníu.
Battlefield er fyrstu persónu skotleikur og er fyrst og fremst spilaður í netspili. Tugir milljóna notenda spila leikinn um allan heim, en leikurinn er uppfærður á um átján mánaða fresti og hefur hver uppfærsla verið að seljast í átján til 24 milljónum eintaka. „Ég mun hefja störf í mars og fjölskyldan kemur síðan út til mín, skömmu síðar. Ég verð við störf í bankanum þangað til,“ segir Elísabet. Hún segir það hafa verið góð reynslu að vinna í banka, eftir að hafa verið sjö ár hjá CCP að vinna við EVE Online. „Ég er mjög ánægð með tímann hjá bankanum og hef lært mikið af fólkinu sem hér starfar. Það er frábært teymi að störfum hér, og það hefur verið afar góð reynsla að kynnast fjármálageiranum og þeim krefjandi verkefnum sem honum tilheyra,“ segir Elísabet.
Battlefield er enginn venjulegur tölvuleikur í þeim skilningi að umfang hans er fáheyrt. Stórt og mikið samfélag hefur myndast meðal þeirra sem spila leikinn, sem teygir anga sína um allan heim. Ekki fyrir löngu síðan var talað um að Battlefield væri orðin stærsta útflutningsvara Svía í afþreyingariðnaði, en áratugum saman hefur hljómsveitin Abba verið á þeim stalli.
https://www.youtube.com/watch?v=ex1GlZS-t7c
Leikurinn kom fyrst út árið 2002 undir nafninu Battlefield 1942, og naut strax fádæma vinsælda. Frá þeim tíma hefur leikurinn þróast mikið og hratt. Elísabet mun í sínu starfi ekki síst einblína á lifandi starfsumhverfi sem leikurinn byggist á, og mun leiða þá vinnu.