Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta var 10,8 milljarðar króna á fyrri helmingi árs, samanborið við 14,7 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2014. Þá voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmeiri. Bankinn birti uppgjör fyrir fyrri hluta árs í dag.
Launakostnaður bankans stóð í stað milli ára og segir Birna Einarsdóttir bankastjóri og áfram verði unnið að hagræðingaraðgerðum til kostnaðarlækkunar. „Afkoma bankans á fyrri helmingi ársins var góð. Grunnreksturinn styrktist á tímabilinu sem endurspeglast í heilbrigðum vexti útlána og innlána, sem og í þóknanatekjum sem jukust um 13% milli ára. Útlán jukust um 3% frá áramótum og er það í samræmi við áætlaðan hagvöxt á tímabilinu. Ánægjulegt var fyrir bankann að hljóta hærri einkunn í fjárfestingarflokki hjá bæði Fitch og S&P.
Launakostnaður stendur í stað og mun bankinn halda áfram að vinna að hagræðingaraðgerðum til kostnaðarlækkunar. Eiginfjárhlutfall bankans helst áfram sterkt sem og lausafjárstaða bankans. Það er afar mikilvægt nú þegar við horfum fram á losun fjármagnshafta. Íslandsbanki gegnir þar mikilvægu hlutverki og vinnur að þeirri áætlun með eigendum sínum og stjórnvöldum. Stefnt er að töluverðri breytingu á efnahagsreikningi bankans með rammasamkomulagi sem gert var við Glitni,“ segir hún.
Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 14 prósent eiginfjárhlutfall var 13,9 prósent. Eiginfjárhlutfallið var 28,3 prósent í lok 2. ársfjórðungs. Hreinar vaxtatekjur námu 13,6 milljörðum á fyrri hluta árs og voru þær sömu og á sama tímabili 2014. Hreinar þóknanatekjur jukust um 13,2 prósent og námu 6,4 milljörðum króna. Kostnaðarhlutfall var 56 prósent. Heildareignir Íslandsbanka námu 976 milljörðum króna.
Myndband við Jón Guðna Ómarsson, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, má sjá hér:
Uppgjör Íslandsbanka á 2. ársfjórðungi from Íslandsbanki on Vimeo.